135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:48]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka Steingrími J. Sigfússyni, hv. þingmanni fyrir að rifja þetta atvik upp. Það er ein af mínum stóru stundum hér á Alþingi. Ég held satt að segja, minn kæri vinur, að árangur minn hafi stafað af því af hversu miklu viti ég talaði, ekki hversu lengi ég talaði.

Ég rifjaði það upp fyrir okkur hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, varðandi Evrópuráðið í Strassborg, ekki vegna þess að ég gerði mér ekki grein fyrir að þar væri allnokkuð fleiri þingfulltrúar en hér, heldur vegna þess að ég tek eftir því — og vonandi höfum við báðir tekið eftir því — að sjö mínútur duga alveg.

Menn koma þar með stór, flókin mál, alþjóðlegs eðlis, mál sem snúast um mannréttindi, um heilögustu mál. Þeim tekst að gera skýra grein fyrir máli sínu og rökum á einum sjö mínútum, þeir þurfa ekki meira. Þá er spurningin: Þurfum við svona miklu, miklu meira en ræðusnillingarnir úti sem hafa atvinnu af því að flytja mál sitt?