135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns, að eitt af því sem nauðsynlegt er að gera breytingu á í þinghaldi er að efla starf þingnefnda og færa athugun og umræðu um mál meira úr þingsalnum í nefndirnar.

Eitt af því sem nefnt var í umræðunni í sumar og haust var að breyta þingsköpum á þann veg. Nefndastarfið yrði þá að nokkru leyti fyrir opnum tjöldum þannig að þar færu fram umræður um mál sem nefnd hefði til umfjöllunar. Þar mundi ráðherra jafnvel sitja fyrir svörum og skiptast á skoðunum við nefndarmenn og svara spurningum þeirra eða að þangað kæmu gestir sem væru málinu viðkomandi og ræddu við nefndarmenn um það.

Ég er alveg sannfærður um að það væri mjög til hins betra að taka upp þann sið. Því miður var ekki nægjanlegur stuðningur við þá hugmynd að þessu sinni til þess að hún næði fram að ganga í umræðunni.

Þó var lögð fram sú tillaga að mál fari til nefndar milli 2. og 3. umr. ef einn þingmaður, hið minnsta, óskar þess. Það dugar að einn þingmaður beri fram þá ósk, þá fer málið til nefndar til frekari athugunar. Ég held að það sé mjög til bóta og muni skila árangri. Auk þess verður hægt að þróa áfram breytingar í nefndastarfi án breytinga á þingsköpum. Hægt verður að brydda upp á opnum nefndafundum í þingnefnd. Menn ættu einfaldlega að taka höndum saman um að þróa þá hluti á næstu þremur árum, en þingsköpin verða endurskoðuð innan þriggja ára, og taka upp þessa nýjung hægt og varlega. Það er greinilegt að sumir þingflokkar eru varkárari í breytingum af því tagi en aðrir.