135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:24]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt atriði í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem ég vil staldra við. Það var atriði sem hún vék að í upphafi sem voru tilvísanir í umboðsmann Alþingis varðandi gæði lagasetningar. Við höfum kynnt okkur þessar ábendingar umboðsmanns Alþingis og m.a. rætt þær í allsherjarnefnd. Ég er alveg sannfærður um að það er fullur vilji af hálfu allra í þinginu til að taka mark á þessum athugasemdum en ég verð að játa að ég átta mig ekki á samhenginu milli athugasemdanna um gæði lagasetningar og þörf á að vanda betur til verka varðandi lagasetningu almennt og þeirrar kröfu sem Vinstri grænir hafa lagt hvað mesta áherslu á í þessari umræðu sem snýr að ótakmörkuðum ræðutíma eða litlum takmörkunum á ræðutíma. (Gripið fram í.) Vegna þess að ég held að lengri ræður eða lengd ræðuflutnings við 2. og 3. umr. í þinginu hafi afskaplega lítið með gæði lagasetningar að gera. Við viljum flest eða öll bæta vinnubrögð í þinginu og því held ég að það sé miklu meira atriði að horfa á aðra þætti frumvarpsins eins og möguleika nefnda til að kalla ráðherra á sinn fund, kalla eftir því að ráðherrar kynni mál sín í upphafi vetrar og síðan atriði sem snúa að skipulagningu þingstarfa. Í mínum huga er það alveg skýrt að skipulagning þingstarfa hlýtur að verða miklu auðveldari ef ræðutíma eru takmörk sett. Það er miklu fyrirsjáanlegra hvernig umræða þróast en við þær aðstæður sem við búum við í dag þegar ræðumenn geta komið jafnvel með litlum fyrirvara og talað klukkustundum saman og sett allt þingstarfið úr skorðum.