135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[02:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir prýðilega ræðu sem hann flutti á 35 mínútum, um það bil þeim tíma sem okkar tillögur gera ráð fyrir að þingmenn hafi við 2. umr. Hv. þingmaður kvaðst hafa fleiri röksemdum fram að tefla. En ég saknaði þess að hann héldi ofurlítið lengur áfram vegna þess að það sem þingmaðurinn hafði fram að færa var fróðlegt og málefnalegt. Hann spurði ýmissa spurninga um afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem ég vil gjarnan reyna að svara.

Varðandi samanburð við önnur ríki þá skulum við ekki gleyma því þegar við berum okkur saman við þjóðþing í ýmsum löndum sem hv. þingmaður nefndi að þá er ekki saman að jafna okkar fámenna þingi og þingum þar sem þingmenn skipta hundruðum. En látum það liggja á milli hluta. Það sem skiptir máli er að menn eigi kost á að koma skoðunum sínum og rökstuðningi á framfæri eins og hv. þingmaður gerði í máli sínu.

Þegar um flókin mál, umdeild og umdeilanleg er að ræða þá þarf góðan tíma til slíks. Í öðrum tilvikum nægir skammur tími. Ég nefndi fjölmörg þingmál sem við höfum afgreitt frá þinginu á undanförnum dögum og vikum sem hafa kallað á mjög stutta umræðu hér í þinginu en þeim mun vandaðri umfjöllun í nefndum þingsins. Síðan eru önnur mál sem við viljum gjarnan takast á um í þingsal.

Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvernig þingið hefði breyst á undanförnum árum að því leyti að næturfundum hefði fækkað og þegar allt kemur til alls hafa ræður verið að styttast. Við höfum fært okkur úr því sem kalla mætti skipulegri óreiðu yfir í straumlínulagaðra kerfi. Ég verð að játa að hið skipulega kaos, hin skipulega óreiða, finnst mér að sumu leyti heillandi. En við erum öll sammála um að það er skilvirkara og markvissara fyrir þingstarfið að koma betra skipulagi á það.

Samhliða þessari þróun hefur framkvæmdarvaldið, ég held að flestum beri saman um það, sótt í sig veðrið og gerst ágengara gagnvart löggjafarvaldinu, gagnvart Alþingi. Af þessu hafa menn haft nokkrar áhyggjur. Ef við síðan teflum þessu saman verður til kokteill sem hlýtur að verða okkur til umhugsunar. Hver er hann? Jú, í hinni skipulegu óreiðu, í hinni löngu umræðu, felast nefnilega sóknarfæri fyrir stjórnarandstöðu. Það er á grundvelli langrar umræðu sem hún hefur, samkvæmt minni reynslu á undanförnum árum, sest að samningaborði með framkvæmdarvaldi og stjórnarmeirihluta og komist að niðurstöðu. Þetta hefur, þegar allt kemur til alls, reynst ákveðið valdatæki inni í þinginu. Það er bara staðreynd. Það er á grundvelli þess sem við höfum samið.

Þegar það gerist að við styttum ræðutíma eða setjum hömlur á hann að því marki sem hér er gert ráð fyrir, tökum 2. og 3. umr. um þingmál þar sem ræðutími hefur verið ótakmarkaður og styttum hann niður í 20 mínútur í 2. umr. þá er náttúrlega um meiri háttar takmörkun að ræða sem hefur mikil áhrif á þinghaldið. Þá þarf, til að ná markmiðum um aðhald gagnvart stjórnarmeirihluta og framkvæmdarvaldi, að grípa til einhverra annarra ráða. Hver eru þau? Hér er komið að tillögum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð og ég fyrir hönd okkar þingflokks tefldi fram í þessari umræðu. Jú, það var að stytta vinnudaginn í annan endann, inn í nóttina, færa nóttina inn í dagsljósið. Þessi hugmynd hefur síðan litið dagsins ljós í frumvarpi meiri hlutans, um að þinghaldi skuli lokið á degi hverjum klukkan átta, helst klukkan sjö, en í síðasta lagi klukkan átta. Hún er frá okkur komin. Það er tillaga frá okkur.

Það er alrangt þegar því er haldið fram að tillögur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði séu seint fram komnar. Þetta er umræða sem hefur verið að þróast og við höfum teflt fram hugmyndum okkar. Við tefldum fram þeirri grundvallarhugsun að finna þyrfti samspil á milli þess að koma böndum á ræðutímann og styrkja stjórnarandstöðuna á annan hátt. Við höfðum hugmyndir um að forseti þingsins kæmi úr röðum stjórnarandstöðunnar, að verkstjórinn inni í þinginu kæmi úr röðum stjórnarandstöðu. Að sama skapi yrði stefnt að því að verkstjórar í þingnefndum kæmu úr stjórnarandstöðu. Þetta voru hugmyndir sem við tefldum fram.

Ég ætla að koma aðeins nánar að því og skýra með hvaða hætti þetta blasir við mér. Þessar viðræður eiga sér langan aðdraganda, margra ára, og ég hef komið að þessum málum í mörg ár, allar götur frá 1999 þegar menn hafa rætt þessi mál. Við höfum verið að gera breytingar á þingskapalögunum. Gerðar voru breytingar á þingskapalögunum á 10. áratugnum og síðan voru gerðar talsverðar breytingar fyrr á þessu ári, þ.e. 33 greinum var breytt á þessu ári. Við löguðum þingskapalögin að ýmsu leyti að breyttum háttum. En það sem gert er núna ristir hins vegar miklu dýpra.

Það sem við lögðum áherslu á var að það yrði aðgreint algerlega annars vegar á milli þess sem við gerðum til þess að styrkja stjórnarandstöðu og Alþingi, með því að efla nefndasvið, svo dæmi sé tekið og styrkja stjórnarandstöðuna á annan hátt, og hins vegar breytinga á þingskapalögunum. Því hafnaði hæstv. forseti algjörlega. Það er á þessum forsendum sem við vorum að tala um verslun og viðskipti. Það var gert að skilyrði að við samþykktum hvort tveggja í senn en þarna vildum við greina algjörlega á milli. Þetta var sú meginhugsun sem við tefldum fram.

Ég sagði alltaf í þessum viðræðum að við skyldum stíga þessi skref í áföngum. Þegar unga konan sem sannfærði mig um að það bæri að breyta þinghaldinu, stytta vinnudaginn, færa nóttina inn í daginn, heyrði að við værum sennilega að ná þeim áfanga að ljúka þinghaldinu á milli sjö og átta á hverjum degi nema á þriðjudögum, vildi hún að við gengjum lengra. Í raun er heimilt fyrir forseta að bæta við tímann, sem er eitt mál í þessu. Heimildir forsetans, sem kemur úr stjórnarmeirihlutanum, eru auknar. Þarna vildum við heldur draga úr. En þegar ég sagði þetta, að þarna væri skref í rétta átt, þá vildi hún að við færum lengra og þingdeginum lyki klukkan fimm, á sama tíma og leikskólum er lokað á daginn.

Ég var ekki alveg sammála þessu, mér fannst þetta vera skref í rétta átt en sagði: Samhliða þessu skrefi sem við stígum þá skulum við fallast á að beisla umræðuna að verulegu leyti. Föllumst á að minnka 3. umr. að því marki sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Föllumst á það. Látum 2. umr. bíða að sinni. Látum hana bíða að sinni og metum síðan málið eftir því sem það þróast. Á þessi sjónarmið var ekki fallist. Við vorum ein um þessi sjónarmið sem mér fannst þó eðlileg. Við stigum stórt skref með því að takmarka 3. umr. en þegar við áttuðum okkur á því að ekki væri vilji til þess af hálfu stjórnarmeirihlutans og meiri hlutans hér í þingi þá tefldum við því fram að við værum tilbúin að fallast á einhverjar takmarkanir.

Við settum fram hugmynd, í síðustu viku held ég að það hafi verið, um að ræðutími sem er núna ótakmarkaður, færi niður í 40 mínútur. Á allsherjarnefndarfundinum sem ég sat í fyrradag sagði ég fyrir okkar hönd að við værum líka tilbúin að endurskoða þetta og með því móti yrðum við reiðubúin að skuldbinda okkur til að leggja okkar af mörkum til að tryggja að þingskapafrumvarpið yrði samþykkt í síðasta lagi 8. febrúar, að við fengjum meira ráðrúm til að ræða málin.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Magnússon sagði um nefndastarfið. Hæstv. forseti hefur sjálfur tekið undir þau sjónarmið líka og sitthvað af þeim hugmyndum sem voru ræddar á okkar fundum hafa ratað inn í þetta frumvarp vegna þess að menn hafa verið nokkuð sammála um hvert beri að stefna í þessum efnum.

Ein hugmynd sem ég hef lagt áherslu á í þessum viðræðum er að við byrjum á því að breyta fyrirkomulaginu við umræður um þá starfsmenn sem heyra undir þingið. Þá er ég til dæmis að tala um umboðsmann Alþingis. Umræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis er þannig að við ræðum skýrsluna hér í þessum þingsal en umboðsmaður situr í hliðarsal og hlýðir á erkibiskups boðskap. Þeir sem umboðsmaður Alþingis hefur síðan fjallað um fá aldrei tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Það fer aldrei nein umræða fram í reynd um hans skýrslu. Það er nú ekki alveg rétt hjá mér. Oft fer hún reyndar inn í þingnefndir. En ég held að það væri snjöll hugsun að efna til opinna funda með umboðsmanni og þeim aðilum sem hann gagnrýnir og þingnefndum og opna það fyrir fjölmiðlum svona á bandaríska vísu, liggur mér við að segja. Þarna væri skref sem við gætum stigið til þess að opna nefndastarf í þinginu og gera skýrslur og gagnrýni sem kemur fram á stofnanir hins opinbera gagnsærri, skulum við segja, lýðræðislegri, efla umræðu um þau atriði. Þetta er hugmynd sem ég tefldi fram inn í þessa umræðu.

Þá kemur að því að rekja hvers eðlis þessi umræða var. Við höfum átt í þessari umræðu miklu lengur en nemur þessu sumri. Við höfum verið að þróa þessa umræðu í langan tíma, í mörg ár. Við, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, höfum sjálf verið að breytast. Afstaða okkar hefur verið að breytast og þingið hefur verið að breytast eins og ég byrjaði á að segja. Við höfum síðan verið að þróa þessa umræðu áfram á okkar fundum á þessum almennu nótum, reynt að finna grundvöll sem við gætum sameinast um. Þegar ég hef hlýtt á menn tala hér þá finn ég að við erum að tala um mjög svipuð markmið. Við erum að gera það. Þess vegna hef ég verið svo trúaður á að við gætum náð samstöðu með því að gefa okkur tíma til þess. Ég tel að við ættum að gefa okkur að við séum öll að reyna að gera þingið að markvissari og betri vinnustað, ekki bara að betri vinnustað heldur betri lýðræðislegum vettvangi og lagasmiðju. Þetta er það sem við öll stefnum að væntanlega og þess vegna er ég svo dapur yfir því hvernig þetta gerist.

Þá er komið nánar að þessari vinnu. Nú er ég búinn að lýsa því hvernig við höfum þróað þessa hugsun áfram, teflt inn hugmyndum um áherslur sem við viljum sjá í breyttu þinghaldi. Annað mætti nefna sem við erum öll sammála um. Það er að breyta umræðu til dæmis um fjárlög. Við erum búin að upplifa það núna hversu ómarkviss þessi umræða er. Allir eru sammála um þetta, þ.e. að æskilegt væri að breyta umræðunni, að einangra hana eða skipta henni niður í ákveðin svið þar sem ráðherrar kæmu og fulltrúar viðkomandi nefnda, hafa heilbrigðismálin á vissum tíma, félagsmál á öðrum og svo framvegis. Allir eru sammála. Af hverju gerum við þetta ekki og þá af fúsum og frjálsum vilja? Vegna þess að það er þannig að það er svo erfitt að setja þinghald, lýðræðislega samkundu, undir straujárn. Það á eitt við hér og annað þar alveg eins og lögmaðurinn þekkir, eins og lögmaðurinn hv. þm. Jón Magnússon þekkir. Í réttarstarfi gildir eitt hér og annað þar og þannig er þessu líka varið hérna. Ég er talsmaður þess að menn geri hlutina af fúsum og frjálsum vilja. Ég er mjög eindregið fylgjandi því.

Það sem síðan gerist er að hæstv. forseti vinnur úr þessum hugmyndum og það gerir hann í samráði væntanlega við starfsmenn þingsins. Þar er ákveðinn rauður þráður í gegnum þessa vinnu í langan tíma og sá dagur rennur upp að hann leggur fyrir okkur ákveðnar tillögur. Eftir því sem ég kemst næst í mínu minni og eftir því sem ég hef rætt það við mína félaga sem voru staðgenglar mínir síðast þegar ég var utan þings í tvær, þrjár vikur í nóvember, að þegar kom að því, þessu tvennu sem ég nefni, að aðskilja annars vegar breytingar á þingskapalögum og hins vegar styrkingu á þinghaldinu og bættri aðstöðu stjórnarandstöðunnar þá var ekki vegur að fallast á slíkt. Í annan stað, þegar um var að ræða ræðutímann þá var það sett fram þannig við okkur að því bæri annaðhvort að taka eða hafna. Menn fá því skyndilega frumvarp eða frumvarpsdrög í hendur sem eru að mínu mati allt of langt á veg komin og ekki í samræmi við umræðuna. Hún var ekki orðin mótuð eða þróuð eða þroskuð á þennan hátt. Þannig upplifði ég þessa hluti. Menn verða að taka það alveg trúanlegt að okkar vilji, okkar einlægur vilji í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var að þróa þessa umræðu á grunni þess módels sem ég er að lýsa, að við gerum tvennt í senn, stytta ræðutímann, setja hann í einhverjar umbúðir en styrkja samhliða stjórnarandstöðuna á annan hátt og þar nefndi ég verkstjórnina í þinginu, verkstjórnina í þingnefndum og ýmsa aðra þætti. Þannig upplifði ég þessa hluti en ég ítreka að inn í þessa umræðu tefldum við ekki — það er mikill misskilningur að við höfum teflt hugmyndum fram seint og um síðir. Við höfum tekið þátt í þessari umræðu af fullum krafti og ekki síður og eigum að vissu leyti hluta í þeim hugmyndagrunni sem hér hefur verið að mótast. Það er nú staðreynd málsins.

Síðan tala menn um hversu vel hafi verið unnið að málinu í allsherjarnefnd og þeir hafa talað um ótrúlega þolinmæði hv. formanns nefndarinnar. Vita menn hvenær málinu var vísað til nefndar? Málinu var vísað til allsherjarnefndar síðastliðinn fimmtudag. Okkar fulltrúi óskaði eftir því að kallaðir yrðu til nefndarinnar fyrrum forsetar þingsins, að leitað yrði eftir upplýsingum frá öðrum þjóðþingum og þar fram eftir götunum og að okkur gæfist tími til að ræða málin í þaula vegna þess að sú umræða sem ég hef alla vegana tekið þátt í sem formaður þingflokks undir verkstjórn hæstv. forseta þingsins hefur verið miklu dýpri og þróaðri en það sem hefur verið að gerast í allsherjarnefnd á undanförnum dögum. Þar hafa menn ekkert farið djúpt í saumana á málinu eftir því sem ég hef kynnt mér það heldur hafa þeir verið að þjarka um það hvort eigi að fara upp eða niður með þessar mínútur og hversu þá hátt upp. En að fara í gegnum einstakar greinar og taka þessa umræðu í þaula hefur alla vegana ekki verið gert á þá dýpt sem ég og við hefðum kosið að hefði verið gert enda á þetta að byggjast á miklu vandaðri vinnubrögðum en þessu nemur. Það er mín skoðun. Talað er um langlundargeð og þolinmæði gagnvart okkur. Við erum búin að taka þátt í þessari umræðu í langan tíma og við erum að þróa hana áfram.

Hv. þm. Jón Magnússon sagði að við værum að stilla okkur upp sem einhvers konar fórnarlambi í þessu máli. Í reynd erum við ekki að gera það. Við erum að ræða líka um efnisatriði málsins. Við höfum farið mjög ítarlega yfir okkar tillögur sem við höfum teflt fram núna til málamiðlunar og til þess að bæta þingskapafrumvarpið. Hv. þm. Atli Gíslason, fulltrúi okkar í allsherjarnefnd, fór almennum orðum yfir frumvarpið og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fór ítarlega yfir efnisatriðin, yfir þær tillögur sem við höfum sett fram.

Eitt vil ég leggja mikla áherslu á. Það er að rætt verði við starfsmenn Alþingis um alla útfærslu á þessu málum. Ýmis atriði eru vanreifuð tel ég vera, atriði sem við eigum eftir að ræða nánar í okkar hópi, eins og á hvern hátt stjórnarandstaðan og þingflokkarnir eru styrktir. Þar er eitt sjónarmiðið að styrkja nefndasviðið almennt. Annað sjónarmið er að færa starfsmenn nær hinum pólitísku flokkum. Starfsmenn Alþingis, eftir því sem ég hef séð og heyrt, hafa efasemdir um síðari kostinn og mér finnst eðlilegt að það verði teknar upp viðræður við starfsmannafélagið um það efni. Ég skil þeirra sjónarmið mæta vel sannast sagna og vil að það verði skoðað.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, flutti ræðu um hinar miklu samningaviðræður og framlag Framsóknar inn í þessa umræðu og miklu umræðu og djúpu í þingflokki Framsóknarflokksins. Það má vel vera að sá þingflokkur hafi rætt þetta ítarlega og það má vel vera að aðrir þingflokkar hafi gert það líka. Við fórum vissulega yfir þau drög og öll þau gögn samviskusamlega sem komu. En eftir því sem mín rannsóknarvinna leiðir í ljós þá voru þetta nú ekki miklar breytingar sem þessir flokkar geta státað af frá því plaggi sem hæstv. forseti Alþingis reiddi fram á sínum tíma.

Það er mér harmsefni að við skyldum ekki, og skulum ekki ef það verður ofan á, ná samkomulagi um að skjóta afgreiðslu þessa máls á frest. Ýmsir kostir eru enn í stöðunni. Sá kostur er til staðar að fresta gildistöku laganna og freista þess að ná samkomulagi um frekari breytingar á þingsköpunum. Við — og ég ítreka það — settum fram það tilboð af okkar hálfu að málið yrði ekki keyrt í gegnum þingið, gert að lögum fyrr en í byrjun febrúar. Við gætum hnikað þeirri dagsetningu til þannig að við gæfum okkur bara fyrstu vikuna í þinghaldinu eftir jól til þessa starfs. Við viljum allt til vinna til þess að fá betri tíma til þess að skoða þessi mál.

Ég legg áherslu á að þær hugmyndir sem við höfum teflt fram eru ekkert að koma fram á síðustu stundu. Það sem við erum hins vegar að gera á síðustu stundu er að tefla fram málamiðlun til að freista þess að koma í veg fyrir að frumvarpið í þeirri mynd sem það liggur núna fyrir verði að lögum.

Ég beini orðum mínum til hv. þm. Jóns Magnússonar og segi að ég vona að ég hafi gert grein fyrir því hvernig þetta mál lítur út frá mínum bæjardyrum. Ég geri mér grein fyrir því að aðrir hafa aðra sýn á þetta mál. Það hafa verið miklar og heitar tilfinningar í þessari umræðu og mismunandi sjónarmið. En ég legg áherslu á að þegar allt kemur til alls þá erum við öll að leita eftir svipuðum markmiðum. Við viljum bæta þinghaldið og við viljum efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við erum ekki að fullu sammála um hvernig það verði best gert, en ég segi: Eigum við ekki að leita leiða enn þá til að gera þetta saman?