135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun aldraðra, viðamikill lagabálkur sem í stuttu máli felur í sér að verið er að skáka verkefnum á milli ráðuneyta, draga upp nýjar línur í verkefnaskiptingu á milli stofnana sem einkum hafa heyrt undir félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Við teljum margar þessara breytinga góðra gjalda verðar og styðjum þær í sjálfu sér þótt við hefðum viljað standa öðruvísi að verki um ýmsa þætti og höfum efasemdir um hversu skynsamlegir aðrir þættir eru.

Eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar höfum við aðallega staðnæmst við eina grein laganna, nefnilega 18. gr. þar sem kveðið er á um að starfrækja skuli stofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hafi það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra. Í 18. gr. segir að ráðherra skuli skipa forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Kveðið er á um hæfisskilyrði og að forstjóri skuli hafa heimild til að ráða aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Síðan er það ráðherra að skipa stjórn í stofnuninni og hvernig að því skuli staðið.

Þetta er grein til bráðabirgða. Í umsögn með greininni kemur fram að með vorinu skuli lagt fyrir Alþingi frumvarp um þessa stofnun, með hvaða hætti hún skuli skipulögð og á hvaða forsendum hún skuli yfirleitt reist. Með öðrum orðum, fyrst er ákveðið með bráðabirgðaákvæði í lögum að heimila ráðherranum, hæstv. heilbrigðisráðherra, að skipa forstjóra í stjórn sem er ekki orðin til. Við höfum lagt á það áherslu að röðin verði þarna önnur, að við fáum fyrst lögin um nýju heilbrigðisstofnunina fyrir þingið og ef þau verða samþykkt sé komið að því að ráða forstjóra stofnunarinnar.

Á það hefur verið bent á móti að til þess að smíða slík lög þurfi að fá fólk til að sinna því verkefni. Nú er það svo að í fjárlögum er gert ráð fyrir fjárveitingu undir forsætisráðuneytinu til þeirra verka að því er mér skilst og hægur vandinn að ráða verkefnisstjórn til að sinna því afmarkaða hlutverki. En við teljum óeðlilegt að hraða málinu með þessum hætti og hafa forgangsröðina eins og hér er boðið upp á. Ég vil taka fram að áður en ég lýk máli mínu ætlast ég til þess að hæstv. forsætisráðherra hlýði á mál mitt og svari spurningum sem ég kem til með að beina til hans. Ég óska því eftir því að hæstv. forsætisráðherra verði gert viðvart vegna þess að ég óska eftir því að heyra viðbrögð hans.

Á meðan við bíðum eftir hæstv. ráðherra langar mig til að vekja athygli á hinu víðara samhengi hlutanna þegar heilbrigðisþjónustan er annars vegar og vísa sérstaklega til viðtals við hæstv. heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu þar sem hann gumaði af því að framtíðin væri sú að Íslendingar legðust í útrás með heilbrigðisþjónustu. Er líklegt að við höfum burði til slíks? Já, að mörgu leyti. Bæði höfum við úrvalsfólk að störfum í heilbrigðiskerfinu, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og aðra sem koma að skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar. Staðreyndin er nefnilega sú að við erum að mörgu leyti með prýðisgott kerfi, það eru ýmsar brotalamir í því, það hefur verið í þróun en að uppistöðu til er það ágætt og um þetta kerfi hefur ríkt víðtæk sátt í samfélaginu. Heilbrigðiskerfið á Íslandi er eins konar kokteill almannareksturs og einkareksturs sérfræðinga, sjálfseignarstofnana, þar ægir saman ýmsum formum en hin pólitísku átök snúast um hvar eigi að draga þessar markalínur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað þá stefnu, og Samfylkingin tekið undir, að í ríkari mæli en verið hefur eigi að stefna inn í form einkareksturs og er ég þá sérstaklega að vísa í yfirlýsingar frá varaformanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem er ákafur stuðningsmaður og áhugamaður um einkarekstur, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni, ef marka má ummæli hans hér á Alþingi og í blaðagreinum sem hafa birst á liðnum missirum. Þetta er því stefnan og átökin snúast um það hvar draga eigi markalínurnar á milli almannaþjónustunnar annars vegar, þeirrar sem lýtur lýðræðislegri stjórn, og hins vegar einkareksturs og einkasjúkrahúsa sem nú eru að rísa upp. Ég vísa þar til áforma um að reisa einkaspítala í Garðabæ og ég vísa til þess sem er að gerast á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík, sem menn reyndar, að því er ég fregna, ætla að kalla því nafni en verður undir einkarekstrarformi.

Við sjáum samhengi hlutanna. Á sama tíma og verið er að skerða framlög til Heilsugæslunnar í Reykjavík bíða einkafyrirtækin spennt eftir því að fá fjármunina í sínar hendur, þau vita að samkvæmt samningum sem til eru við Tryggingastofnun og hið opinbera er um að ræða ákveðna sjálftöku niður í vasa skattborgarans. Þegar ríkið fellur frá því að reisa Landspítalann mun hann rísa í Mosfellsbæ og greiðslur til að fjármagna þær byggingar og starfsemina munu koma frá skattborgaranum. Við sem höfum viljað ljá því máls að fresta framkvæmdum hér á suðvesturhorninu — ég hef orðað það varðandi Sundabraut, ég hef orðað það varðandi Landspítalann, þó að ég vilji sjá hann rísa hef ég um það efasemdir að rök mín muni ganga eftir. Ég hef verið tilbúinn að fallast á þetta til að draga úr þenslunni einkum hér á suðvesturhorninu en ef niðurstaðan verður sú að byggingin rísi undir öðru rekstrarformi annars staðar og fjármögnunin kemur úr ríkissjóði er til lítils unnið að ráðast í þessa frestun.

Það vekur athygli mína þegar við skoðum fjárútlát ríkisins og fjárframlög á komandi fjárlagaári að þá er niðurskurður að raungildi til heilbrigðisþjónustunnar, almannaþjónustunnar almennt, Landspítalans, heilsugæslunnar í Reykjavík, en þegar litið er til sérfræðikostnaðar þá er ekki verið að draga þar úr. Þarna erum við komin inn á hinn pólitíska vígvöll. Hvert ætlum við eiginlega að halda? Ég hef tekið Domus Medica, með þeim ágætu myndtækjum sem þar eru, sem dæmi um þessa þróun í heilbrigðiskerfinu, hvernig læknar geta beint fjármagni inn í einkareksturinn. Hver er það sem greiðir brúsann, hver borgar þann tilkostnað? Að sjálfsögðu er það skattborgarinn og það er sú stefna sem allir flokkar fylgja, þeirri stefnu að heilbrigðisþjónustan sé fjármögnuð með fé frá hinu opinbera, þannig að þetta er sú þróun sem við erum að verða vitni að.

Mig langar til að leggja áherslu á þetta við hæstv. forsætisráðherra sem kominn er í þingsalinn að við höfum af því áhyggjur í stjórnarandstöðunni, Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur af því áhyggjur, að ríkisstjórnin sé að þröngva heilbrigðisþjónustunni út í einkarekstur. Röksemdin er þessi: Dregið er úr framlögum til heilsugæslunnar, til Landspítalans að raungildi, til Sjúkrahússins á Akureyri, á Austurlandi og víðar, fallið er frá áformum um að hraða smíði Landspítalans en á sama tíma eru áform um að reisa sjúkrahús í Mosfellsbæ, opna einkarekinn spítala í Heilsugæslustöðinni í Garðabæ.

Það sem mun gerast er að við sem ljáðum því máls og ljáum því máls — fyrir þingfundinum liggur tillaga um að breyta Landssímalögunum svokölluðu, sólskinsfjárlögunum sem voru sett hér fram sérstaklega um ráðstöfun andvirðis Símasölunnar, um að fresta framkvæmdum við háskólasjúkrahús. Við höfðum mörg ljáð þessu máls á þeim forsendum að nú sé eðlilegt að draga heldur úr þenslu hér á suðvesturhorninu, en við sjáum fram á að þetta sjúkrahús eða sambærileg stofnun gæti risið annars staðar. Markmiðin sem við erum að setja okkur ná því ekki fram að ganga. Þegar við horfum til þess kerfis sem við búum við, sérfræðingar með samninga við Tryggingastofnun með möguleika á að ná í fjármagn úr almannaþjónustunni, mun það gerast þegar skorið er niður við almannaþjónustuna að upp rísa einkareknar stofnanir sem eiga þá kröfu á fjármunum frá hinu opinbera vegna þess að stefna Sjálfstæðisflokksins nú orðið er að sjá til þess að heilbrigðisþjónustan sé fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum og við erum sammála um þetta. En ég er að reyna að færa rök að því að með niðurskurði færum við þessa þjónustu út í einkarekstur.

Mér hefur blöskrað það við umræðuna um fjárlög — ég hef verið að reyna að kalla fram umræðu um þetta og svör við þessu, hvort það geti verið að menn trúi ekki þeim staðhæfingum sem koma frá forsvarsmönnum Landspítalans sem segja eftir áralangan niðurskurð, Ríkisendurskoðun staðfestir það, að framleiðniaukning hafi orðið á Landspítala ár eftir ár en nú segja forsvarsmennirnir: Við getum ekki meira. Nú blasir það við að við verðum að skerða þá þjónustu sem boðið er upp á.

Trúir ríkisstjórnin þessu ekki, telur hún þetta rangt? Tekur hún undir með framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmi Egilssyni, sem fer nú um ganga Landspítalans með niðurskurðarsveðjuna? Telur hún að hann muni ná markmiðum sínum og að forsvarsmenn sjúkrahússins hafi rangt fyrir sér? Eða er markmiðið að þröngva spítalanum út í einkarekstur, að úthýsa tiltekinni starfsemi? Trúir hún yfirlýsingum sem koma frá forsvarsfólki Heilsugæslunnar í Reykjavík um að það þurfi á milli 400 og 800 milljónir til að halda í horfinu, trúir hún því? Menn hafa haft uppi áform um að draga úr ýmsum þáttum, úr heimahjúkrun um 20%, komið hafa fram tillögur þess efnis að loka Barnahjálp, Mæðraskoðun og öðru slíku. Auðvitað verður slíkt fyrirkomulag einhvers staðar fyrir hendi en það verður bara í öðru og nýju rekstrarumhverfi, rekstrarformi.

Getur verið að Alþingi ætli ekki að taka þessa umræðu alvarlega? Ætla menn ekki að hlusta á forsvarsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss sem segja okkur að neyðarástand blasi við, að það sé ekki hægt og verði ekki hægt að veita óbreytta þjónustu á komandi ári ef fjárlögunum verður ekki breytt? Mig langar til að heyra hvað hæstv. forsætisráðherra, verkstjóri í þessari ríkisstjórn, hefur um þetta að segja.

Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra kæmi hingað í þingsal er 18. gr. þessa lagafrumvarps sem við höfum hér til umfjöllunar. Ég hef áður vikið að þessari grein í umræðu þegar hæstv. forsætisráðherra var hér í salnum. Ég gerði þá grein fyrir afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til þessarar lagaklásúlu og hversu vafasama við teldum hana vera og hve óeðlilega við teldum staðið að verki. Ég sagði við þá umræðu að ég óskaði ekki á þessu stigi eftir viðbrögðum frá hæstv. forsætisráðherra en að sjálfsögðu var stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þinginu að fara þess formlega á leit að verkstjóri ríkisstjórnarinnar tæki beiðni okkar til skoðunar. Nú er komið að því að ég óska eftir því að fá svör frá hæstv. ráðherra hvað þetta snertir. Finnst honum það vera eðlileg vinnubrögð af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra að knýja þetta fram, vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti því yfir hér í þingsal við fyrri umræðu þessa máls að hann hygðist á næstunni ráða til starfa forstjóra í þessari stofnun sem er ekki orðin til og á sér ekki stoð í lögum? Finnst hæstv. forsætisráðherra það vera eðlilegt vinnulag? Er ekki rétt að verða við óskum okkar um að afturkalla þessa grein eins og við gerum hér tillögu um, að afturkalla þessa grein, bíða eftir því að með vorinu, eins og boðað er í frumvarpinu, komi frumvarp um þessa nýju sölumiðstöð, um þessa nýju markaðsmiðstöð sjúkdómanna og við tökumst þá á um það hér á Alþingi og ef meiri hluti er fyrir því er ekkert við því að segja að skipaður verði forstjóri og stjórn. En að það skuli gert áður en lagastoð eða lög um stofnunina eru fyrir hendi — auðvitað er ekki rétt hjá mér að segja að lagastoðin sé ekki fyrir hendi því að um það fjallar okkar tillaga, að nema hana úr gildi eða slá henni á frest. Þetta er sú ósk sem við höfum fram að færa og mér þætti vænt um að heyra álit hæstv. forsætisráðherra á þessari tillögu og hvort hann telji að til greina komi að samþykkja hana.

Að lokum þetta: Er einhver hætta í þessu fyrir áhugamenn um þessa framkvæmd, fyrir aðaláhugamanninn, hæstv. einkavæðingarráðherra heilbrigðismála, hæstv. Guðlaug Þór Þórðarson, sem er sérstakur áhugamaður um að knýja heilbrigðisþjónustuna út í einkarekstur, nokkuð sem hann neitaði að vísu hér um daginn. Ég segi: Hvað segja verkin? Dæmum menn af verkunum. Hvað er að gerast á Landspítala? Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er það rétt að útvista eigi ritaraþjónustunni á Landspítalanum? Er það rétt að það eigi að gera í samvinnu við lyfjafyrirtæki? Er það skynsamlegt að ritarar, læknaritarar á stærsta sjúkrahúsi landsins, séu þar á vegum lyfjafyrirtækja, finnst mönnum það eðlileg ráðstöfun? Þetta er engu að síður að gerast og ég óska eftir því að heyra hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé um þetta kunnugt og hver viðhorf hans eru til þess. Mér er kunnugt um að uppi eru ráðagerðir um að gera nákvæmlega þetta.

Að lokum, hæstv. forseti, er það þrennt sem ég er að óska eftir. Í fyrsta lagi gagnvart hæstv. forsætisráðherra: Telur hann að yfirlýsingar forsvarsmanna Landspítala, forsvarsmanna á sjúkrahúsi austanlands, á Akureyri, að yfirlýsingar forsvarsmanna Heilsugæslunnar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu eigi ekki við rök að styðjast? Að það sé rangt að þessar stofnanir geti ekki — og vísa ég þá ekki síst til Landspítalans — veitt óbreytta þjónustu á komandi ári við þau fjárlög sem nú er búið að samþykkja og hver hans viðbrögð eru við þessu? Ég óska jafnframt eftir því að heyra viðbrögð hans við þeirri staðhæfingu okkar og ótta okkar að verið sé að þröngva heilbrigðisþjónustunni út í einkarekstur.

Í öðru lagi viljum við fá að vita hvort ríkisstjórnin, og hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar, er reiðubúinn að verða við þeirri ósk okkar og samþykkja þá tillögu sem hér hefur verið talað fyrir, að 18. grein þess frumvarps sem við ræðum hér verði felld brott, er hann reiðubúinn til þess?

Síðan óska ég eftir því að fá að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra er kunnugt um að verið er að útvista ýmissi þjónustu á Landspítalanum og þar á meðal læknaritaraþjónustunni og að það er að einhverju leyti gert í tengslum við lyfjafyrirtæki, er hæstv. heilbrigðisráðherra kunnugt um þetta? Ég óska eftir að fá svör við þessum spurningum og heyra viðbrögð ríkisstjórnarinnar.