135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:07]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur farið mikinn í þessari umræðu eins og vænta mátti og hans er von og vísa. Við ræðum núna við 3. umr. frumvarp um breytingar á almannatryggingalögum og ýmsum fleiri lögum vegna skipulagsbreytinga í Stjórnarráðinu. Fjárlög ársins 2008 eru afgreidd, þau voru samþykkt á Alþingi í gær. Umræðan um þau á því ekki heima hér lengur, það er búið að taka hana. Niðurstaðan í því máli liggur fyrir.

Það er hárrétt sem hv. þm. Ásta Möller benti á að gerðar voru sérstakar ráðstafanir í tengslum við afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga hvað það varðar að beina fjármagni til sjúkrahúsanna í nágrenni Reykjavíkur til að þau gætu tekið að sér tiltekin verkefni til að létta á Landspítalanum. Ég hygg að um slíkar ráðstafanir þurfi ekki að deila hér eða skynsemina í þeim vegna þess að þar er unnt að fá meira út úr þeirri aðstöðu sem fyrir er með tiltölulega litlum tilfærslum á fjármagni milli stofnana. Það er sú leið sem farin var.

Að öðru leyti eru fjármál Landspítalans náttúrlega í sífelldri og stöðugri vinnslu. Það segir sig sjálft með stofnun sem hefur vel á þriðja milljarð króna til ráðstöfunar á mánuði hverjum að erfitt er að finna á einum tímapunkti fyrir áramót nákvæmlega töluna sem passar fyrir allan reksturinn árið eftir, sérstaklega í ljósi þess að mikill hluti af kostnaði og útgjöldum er óviss og ræðst af þáttum sem enginn hefur vald á, eins og t.d. því hversu mörg slys verða í landinu, bráðaaðgerðir o.s.frv.

Mér finnst fullkomlega óþarft af hv. þingmanni að gera lítið úr því að einn okkar fyrrverandi kollega á Alþingi, Vilhjálmur Egilsson, skuli hafa verið fenginn til að vinna ákveðin verkefni í sambandi við þetta mál. Enginn getur borið brigður á fagþekkingu hans í sambandi við rekstur eða fjármál. Það er ekki drengilegt að koma hér ítrekað og lýsa honum þannig að hann gangi um eða hlaupi um gangana á Landspítalanum með einhverja sérstaka niðurskurðarsveðju. Þetta er ekki góður málflutningur, hv. þingmaður.

Ef við komum að stærri hliðum þessa máls, spurningunni um hvað hæft er í þeim ásökunum vinstri grænna, sérstaklega, að beitt sé brögðum, bolabrögðum til að svæla heilbrigðisþjónustuna út í einkavæðingu, þá er svarið náttúrlega að þetta er ómerkilegur málflutningur sem á sér enga stoð en vinstri grænir éta hér hver upp eftir öðrum dag eftir dag, jafnvel einstaka sinnum með aðstoð úr öðrum flokkum.

Það er auðvitað ekki minnsti fótur fyrir þessum áburði sem ég kalla svo, enda er enga stoð fyrir því að finna í þeim þingskjölum eða þeim grundvallargögnum sem liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar um heilbrigðismálin. (Gripið fram í: Hvað með röksemdir …?) Þær eru ekki á góðum grunni reistar, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)

Ef ég gæti fengið tóm til að nýta mér málfrelsi mitt, sem er dýrmætt í þingsalnum, til að koma sjónarmiðum mínum að þá þætti mér vænt um það. Þessi málflutningur er ekki á rökum reistur.

Það var mjög gott sjónarmið sem hv. þm. Karl V. Matthíasson kom með áðan þegar hann spurði: Má aldrei vera einkarekstur eða einkafyrirtæki í nokkru sem tengist heilbrigðisþjónustunni? Og einhver kallaði fram í og sagði nei. Það bara má ekki, miðað við hugmyndafræði Vinstri grænna. Kannski var einhver að snúa út úr fyrir þeim eins og þeim hættir stundum til að gera gagnvart öðrum þingmönnum hér. (Gripið fram í: Kannski forsætisráðherra?)

Aðalatriðið í þessu máli er með hvaða hætti við getum tryggt sem besta almannaþjónustu á þessu sviði þannig að við fáum sem mest fyrir það fjármagn sem í þennan málaflokk fer. Ef menn leyfa sér að skoða málið á þeim grundvelli eru menn kannski ekki svo ósammála. Og þá þurfa menn ekki að gera hver öðrum upp annarleg sjónarmið eins og er svo ríkt í málflutningi vinstri grænna. Annarleg sjónarmið sem ganga út á það að tiltekinn hluti þingmanna beri ekki velferð og hagsmuni sjúklinga fyrir brjósti. Það er rangt.

Mér þótti vænt um það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði þó í morgun, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi kosta almannaþjónustuna af almannafé. Það er rétt. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri núna á þeirri skoðun. Það er ekki nýtt, hv. þingmaður, það er sko ekki nýtt. Það er því útúrsnúningur líka að nota smáorðið nú í því sambandi. (Gripið fram í.) Hvað sagðirðu? (Gripið fram í: Eigin bækling frá 1998.) Já, ég hef lesið alla mína eigin bæklinga.

Við verðum að koma þessari umræðu á aðeins hærra plan, ef mér leyfist að segja svo, virðulegi forseti. Fjármál spítalans eru í stöðugri endurskoðun. Heilbrigðisráðherra hefur gert sérstakar ráðstafanir til að fara yfir alla þætti þar sem grunur leikur á að veikleikar séu í fjármögnun stofnana. Það verður að sjálfsögðu gert og því verður haldið áfram. Þessi mál verða tekin föstum tökum, bæði í heilbrigðisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. En það þarf enginn að kvíða því að það þýði að hagsmunir sjúklinga, veiks fólks, verði fyrir borð bornir. Það er ómaklegt að bera slíkt á borð í þingsalnum.

Varðandi hina spurningu þingmannsins sem hann beindi til mín um 18. gr. þess frumvarps sem hér er á dagskrá, þá vil ég segja að ég tel ekkert athugavert við málatilbúnaðinn eins og hann er, enda var þetta mál þrautrætt í ríkisstjórn og afgreitt af hálfu ríkisstjórnarinnar í því frumvarpsformi sem fyrir liggur og samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna og það er núna farið í gegnum heilbrigðis- og trygginganefnd þingsins. Ég sé því ekki og tel ekki neitt athugavert við þennan undirbúning. Ég tel eðlilegt að heilbrigðisráðherra fái þær heimildir sem leitað er eftir til að geta ýtt þessu máli úr vör en Alþingi hefur síðan síðasta orðið um það hvernig um þessa stofnun verður búið áður en hún hefur störf.

Nafngiftirnar sem hv. þingmaður leyfir sér að nota um þessa stofnun eru náttúrlega líka með ólíkindum, verslunarmiðstöð sjúkdóma og annað í þeim dúr, sölumiðstöð sjúkdóma. Er þetta ekki smekklegt? Er þetta ekki líklegt til að efla traust á málflutningi þingmannsins að taka sér svona orðskrípi í munn? Hvernig væri nú að hætta málflutningi af þessu tagi og reyna frekar að vinna sameiginlega að því að bæta okkar ágæta heilbrigðiskerfi, sem er í fremstu röð, og halda áfram að gera það betra, tryggja að við getum fengið meiri og betri þjónustu fyrir sömu fjármuni ellegar sparað okkur einhvern kostnað að óbreyttri þjónustu?

Hv. þingmaður talaði mikið um hagsmuni skattgreiðenda. Ég tel að okkur sé öllum skylt að hugsa um þá og hafa þá í heiðri, að hafa hagsmuni skattgreiðenda að leiðarljósi í þessu. Það er nákvæmlega hugmyndin að baki þessum hugmyndum, nákvæmlega það og ekkert annað, nema ef vera skyldi að bæta enn frekar hag sjúklinga og þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda, herra forseti.