135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:20]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki tíma til þess áðan að nefna Landspítalann. En ég vísa til þess sem ég sagði í umræðu um frumvarpið um ráðstöfun á sölutekjum Landssímans um daginn, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að það er ekki verið að hægja á þeim framkvæmdum. Þær eru bara ekki komnar lengra en raun ber vitni í undirbúningi. Ég vísa hv. þingmanni á svar mitt við þeirri fyrirspurn. Allt það sem hann sagði hér um það mál var því miður byggt á röngum forsendum.

En mér þykir vænt um að heyra það sem hv. þingmaður sagði um að hann getur fallist á að það sé rekin blanda af einkarekstri og opinberum rekstri á þessu sviði eins og öðrum. Þá erum við farnir að geta talað saman. Ég vil líka taka undir með honum að ég tel óeðlilegt að einhverjir tilteknir aðilar geti notfært sér aðstöðu sem þeir hafa komið sér upp til þess að krækja sér í einhverjar óeðlilegar greiðslur út úr ríkiskerfinu í gegnum sérstaka aðstöðu. Ég tek alveg undir það.

Við höfum því auðvitað eitt og annað sameiginlegt sem við getum orðið sammála um í þessu máli. En þá verða menn líka að vera opnir fyrir nýjungum, nýrri hugsun og á grundvelli þess að jafnt hagsmuna skattgreiðenda sem (Forseti hringir.) sjúklinga sé gætt.