135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:27]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tölum um þjónustu við sjúka og aldraða, þá hlýtur það að tengjast því að við krefjumst þess að það sé nægilegt fjármagn til að reka þá þjónustu sómasamlega.

Miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag, um rekstrarstöðu Landspítalans, um öldrunarstofnanir, um heilbrigðisstofnanir, sem hafa orðið að draga úr þjónustu þá má auðvitað túlka það sem svo að ríkisstjórnin með fjárframlögum sínum beri ekki hag sjúklinga og aldraðra fyrir brjósti. Auðvitað á að leita mismunandi leiða og hafa fjölbreytta þjónustu. Til þess þurfa þá líka núverandi stofnanir að fá meira fjármagn svo þær geti þróað fjölbreytta þjónustu og farið í þróunarstarf og boðið upp á nýmæli. (Forseti hringir.) Þeim er það ómögulegt eins og málin eru í dag.