135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[13:41]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða afnám veiðigjalds af þorski og rækju og lækkun á gjaldi á öðrum fisktegundum. Ég er því alls ekki sammála. Ég tel ástæðulaust að taka veiðileyfagjaldið af. Á sama tíma og menn mega leigja kvóta fyrir 220–230 kr. á kíló af þorski eru útgerðarmenn að kvarta yfir því að þurfa að borga 1,50 kr. í veiðileyfagjald. Þetta eru mjög skrýtin vinnubrögð.

Menn tala um mismunun í þessu máli. Ég hef sagt og segi enn að mismununin liggur aðallega í fiskveiðistjórnarkerfinu. Þar er fáum útvöldum afhentur fiskurinn í sjónum. Þeir mega leigja hann eða selja hann og veðsetja nýtingarréttinn. Fólkið í sjávarbyggðum landsins sem starfar í sjávarútvegi situr uppi og má éta það sem úti frýs. Það er auðvitað óásættanlegt í þessu kerfi og þess vegna tel ég og hef talað fyrir því að breyta því kerfi og það er löngu tímabært.

Að bera saman auðlindagjald í sjávarútvegi og auðlindagjald af orkuverum er eins og að bera saman appelsínur og epli, sérstaklega þar sem orkuver Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Suðurnesja og stærri orkuver og rafmagnsveitur eru enn þá venjulegast í eigu sveitarfélaga eða almennings. Þar er undantekning hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja en það er auðvitað ekkert hægt að bera þetta saman. Þeir sem fá þúsund milljarða afhenta til þess að braska eiga ekki að sleppa við að borga auðlindagjald. Þegar menn leggja þetta að jöfnu og spyrja af hverju ekki sé auðlindagjald á orkuverin og auðlindirnar í jörðu þá er þetta bara svart og hvítt. Annars vegar er um einstaklinga að ræða sem fengu ókeypis afnot af fisknum í sjónum og hins vegar landsmenn og sveitarfélög sem byggðu, t.d. Reykvíkingar, upp Orkuveitu Reykjavíkur og landsmenn allir hafa byggt upp Landsvirkjun.

Veiðileyfagjald hefur verið afkomutengt í sjávarútvegi og hefur hækkað eða lækkað eftir því hvernig afkoman hefur verið. Þetta eru ekki háar fjárhæðir en hefðu dugað, ef auðlindagjaldið hefði verið reiknað eins og það átti að vera, 2,45 kr. á hvert þorskígildiskíló, um 1.100 millj. kr., til þess að bæta stöðu þeirra sem verst fara út úr aflaniðurskurði, þ.e. fólkinu í sjávarbyggðunum til sjós og lands, fiskvinnslufólki og sjómönnum.

Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er ekkert annað en ríkisstyrkur, að afhenda þúsund milljarða til fárra útvalinna er ekki annað en ríkisstyrkur. Ég er efins um að á byggðu bóli finnist atvinnugrein þar sem menn hafa fengið jafnmikinn ríkisstyrk og íslenskur sjávarútvegur. Sjávarútvegur hefur reyndar verið undirstaða alls á Íslandi í gegnum tíðina, síðustu 100 árin. Það sem við höfum gert í þessu þjóðfélagi hefur komið úr sjávarútvegi. Gjaldeyristekjur okkar hafa verið í gegnum sjávarútveg. En við höfum stýrt honum illa og við höfum stýrt honum vitlaust. Við höfum ekki farið rétt að í sjávarútveginum og þess vegna horfum við upp á það að í dag er afkoman að versna og gjaldeyristekjurnar af sjávarútvegi minni en þær þyrftu að vera. Því mætti breyta tiltölulega auðveldlega.

Auðvitað þurfum við að vita meira um lífríkið í hafinu en við gerum. Við þurfum að hleypa fleirum að rannsóknum á hafinu og þurfum að rannsaka svæðið kringum Ísland, rannsaka tegundir. Við þurfum að hleypa öðrum að en þessari ríkisstofnun, einokunarstofnun sem ein hefur fengið að hafa álit á ástandi hafsins. Það hefur ekki verið hlustað á starfandi sjómenn, ekki verið hlustað á þá sem kannski þekkja þetta best. Það er ekki hlustað á togaraskipstjóra, sem hönnuðu togararallið í upphafi, sem nú er aðalforsendan fyrir vinnubrögðum Hafrannsóknastofnunar í fisktalningu þeirra. Togararallið er ekki sá mælikvarði sem það ætti að vera meðan því er ekki breytt. Það tekur því kannski ekki að fara út í það í smáatriðum núna, hvernig togararallið virkar. En það virkar ekki eins og það gæti gert. Hægt væri að hafa meiri not af því og það gæti mælt nákvæmar fiskimagn á togaraslóð. Það er erfiðara að nota það til að mæla fiskgöngur og fiskirí á grunnsævi og nálægt landi, enda eru fá tog í togararalli tekin á grunnslóð.

Stóra málið er að það eru margir þorskstofnar í hafinu kringum Ísland sem gjörbreytir forsendum fyrir úthlutun kvóta í einni tölu. Með því að úthluta 130 þús. tonnum af þorski er líklegt að við ofveiðum á ákveðnum stöðum en annars staðar með ónýtta stofna, t.d. í djúpköntum og úti í landgrunnskantinum. Þar eru engar fiskveiðar stundaðar orðið. Þar er fiskurinn að öllu jöfnu smærri og jafnvel verri að ýmsu leyti og fiskveiðar eru ekki stundaðar. Þar eru stofnar sem án efa eru í dag vannýttir. Þessu hafa fullorðnir menn haldið fram til margra ára, starfandi sjómenn í 30, 40 ár og jafnvel lengur sem skipstjórar. Þeir hafa haldið þessu fram.

Í fyrsta skipti í ár viðurkennir Hafrannsóknastofnun að fleiri en einn þorskstofn sé við Ísland, í fyrsta skipti. Þeir hafa þrætt fyrir það í gegnum tíðina þótt bæði Norðmenn og aðrir sem hafa rannsakað fisk á sínum heimaslóðum hafi komist að því að það eru margir þorskstofnar og jafnvel staðbundnir stofnar inni á hverjum flóa og firði í Noregi. Hið sama gildir örugglega hjá okkur hérna líka. Fram á þetta hefur verið sýnt með erfðafræðirannsóknum, DNA-rannsóknum. Slíkar rannsóknir munu væntanlega, þegar fram líða stundir, koma mönnum í skilning um að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er vitlaust upp byggt og getur aldrei náð árangri við að byggja upp fiskstofna. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir friðanir og niðurskurð í veiði þá stöndum við frammi fyrir því að á 22 árum, frá því að kerfið var tekið upp, hefur þorskafli hjá okkur minnkað um helming. Árið 1984, þegar kerfið var sett á, veiddum við 267 þús. tonn, núna er úthlutað 130 þús. tonnum.

Af hverju vilja menn halda í þetta kerfi? Hvað hvetur fólk til þess að verja ranglátt fiskveiðistjórnarkerfi sem er búið að kippa fótunum undan sjávarbyggðum? Fólk situr í verðlausum eignum, söluverð eigna er svo lágt að það er ekki hægt að losna við eigurnar. Enginn vill eiga heima á þessum stöðum af því að fólk hefur ekki lífsviðurværi þar lengur. Það er búið að selja veiðiheimildirnar og samt heldur Alþingi og alþingismenn uppi óbreyttu kerfi. Ég hefði talið að það væri skylda okkar þingmanna að reyna að gera breytingar til að bæta úr, ekki bara verja eignarhaldið á nýtingarréttinum sem útgerðarmenn hafa. Það er bara rangt.

Ég hef lýst andstöðu minni við þetta frumvarp. Ég sé ekki að ástæða sé til að lækka veiðigjaldið fyrir þessa fáu útvöldu. En það stingur mann dálítið að Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir bjóði raunverulega betur en ríkisstjórnin ætlar að gera. Þeir tala um að taka gjaldið af, fella niður veiðileyfagjald. Rök þeirra fyrir því skil ég ekki.

Í þessu frumvarpi er tekin af veiðiskylda á rækju. Það er sérkennilegt að taka af veiðiskylduna. Af hverju gefa menn ekki frjálsar veiðar á rækju? Af hverju leyfa menn ekki þeim fáu sem vilja veiða rækju að veiða hana án þess að þurfa að leigja af einhverjum sægreifum kvóta til að geta stundað rækjuveiðar? Það er ótrúlegt að menn skuli láta þetta yfir sig ganga. Þegar útgerðarmaður vill ekki eða treystir sér ekki til að nýta kvótann sem honum er úthlutað þá þarf hann ekki á honum að halda, þá er sjálfsagt að leyfa öðrum að veiða viðkomandi tegund.

Ákveðið hefur verið að skipa nefnd til að skoða stöðu sjávarbyggða en það er ekki búið að skipa í hana og hún er ekki tekin til starfa. Ég hefði haldið að það þyrfti ekki að skipa slíka nefnd. Ég hélt að menn vissu hvernig ástandið hefur verið á Flateyri, Bolungarvík, Bíldudal og fleiri sjávarbyggðum. Það liggur í augum uppi hvað er að og hverju þarf að breyta og byrja að reyna að breyta. Þjóðin hefur tekið þátt í skoðanakönnunum og 85% telja í síðustu skoðanakönnun að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé ómögulegt, óréttlátt og vont. En á Alþingi eru menn ekki að hugsa um þessi mál, þeir berja hausnum við steininn og ætla að halda áfram að verja hina fáu útvöldu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að byrja á að leyfa handfæraveiðar frjálsar á minnstu bátunum, bundið við tvær rúllur á mann. Við höfum talað um að taka tegundir úr kvóta, byrja á að losa um þetta með þeim hætti, taka út löngu, keilu, skötusel og jafnvel fleiri tegundir, þess vegna ýsu og ufsa. Þetta væri hægt að gera og er ekkert mál að gera þetta. Það þarf ekki einu sinni frumvarp í þinginu. Ráðherra getur tekið þá ákvörðun að ekki verði kvótasetning á þessari tegund eða hinni. Það er nauðsynlegt fyrir Alþingi að hysja upp um sig brækurnar í þessum málum. Eins og einn ágætur þingmaður sagði í gær: Við eigum ekki að vera heybrækur. Ég hvet þingheim til þess að vera ekki heybrækur í framtíðinni heldur taka á þessum málum og breyta kerfinu til batnaðar fyrir fólkið í landinu.