135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[14:02]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ágætt frumvarp sem við höfum rætt síðustu daga um þingsköp Alþingis verður komið til framkvæmda höfum við væntanlega betra lag á því hvernig við stýrum umræðum um ákveðin mál, ég tala nú ekki um fiskveiðistjórnarkerfið og sjávarútvegsmál ,sem við höfum mörg hver mikinn áhuga á að ræða.

Í því skipulagi sem viðgengist hefur í þinginu hefur umræðan því miður þurft að vera með þessum hætti. Eins og ég segi, þetta er fjórða tilraun til að klára 2. umr. um málið. Ég er ekki að skorast undan því að ræða málið en í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við verður þetta að vera svona.

Ég hefði haft mjög gaman af að fara yfir málflutning frjálslyndra í þessu máli og sérstaklega þann mismun sem er á málflutningi hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og Kristins H. Gunnarssonar. Fram kom í máli Kristins H. Gunnarssonar að hann væri jafnvel til í, hann orðaði það sem svo að það væri hægt, að fallast á tillögur meiri hlutans við ákveðnar aðstæður, en ég get ekki fundið að það sé í máli hv. þm. Grétars Mars Jónssonar. Það væri áhugavert að fara yfir það hvernig Frjálslyndi flokkurinn mótar stefnu sína í sjávarútvegsmálum og bera saman við þann málflutning sem hér hefur komið fram.