135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[14:04]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að þingmenn komi hingað upp og tali um að þeir séu tilbúnir að ræða málin og gera það svo ekki. Ég segi enn og aftur: Af hverju liggur okkur svona á að slíta þinginu í dag eða á morgun? Er ekki hægt að vera hér næstu viku? Er það ómögulegt að við gefum okkur tíma til að ræða þau mál sem þarf? Hvaða æðibunugangur er þetta? Af hverju þarf að vera að reka þingið heim og leyfa mönnum ekki að ræða hlutina í botn? Það verða að teljast sorgleg vinnubrögð að gefa þingmönnum ekki tækifæri til að ræða mál eins og þessi sjávarútvegsmál. Það er búið að fresta þessu máli í þrígang og í dag var því frestað í fjórða sinn að taka málið á dagskrá. Þetta eru sorgleg vinnubrögð og segir sitthvað um þingið. Vonandi eru þau lög sem við vorum að samþykkja til bóta, vonandi verða þau til þess að vinnubrögð verði markvissari. Ég trúi því og styð því frumvarp um þingsköp sem við ræddum í gær og í morgun.

Enn og aftur vil ég segja: Það er algjör óþarfi að lækka veiðigjald á útgerð sem við höfum afhent þúsund milljarða, þúsund milljarðar er kvótinn. (Gripið fram í.) Við Kristinn erum sammála um þetta og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sneri út úr orðum Kristins. Það er sjálfsagt að hann svari fyrir sig sjálfur, ég ætla ekki að gera það.

En ég vil benda á að það er verið að slá af veiðileyfagjald upp á tæplega 2,50 kr. þegar þeir sem það þurfa að greiða, og kvarta undan því, geta leigt sömu veiðiheimildir fyrir 230–240 kr.