135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[14:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Péturs H. Blöndals nú við 2. umr. dregur athyglina að þeim gríðarlega vandræðagangi sem var við sölu Landssímans og þeim loforðum sem gefin voru um ráðstöfun á söluandvirði hans. Þjóðin stendur uppi með það að þau loforð hafa ekki verið efnd, fjarskiptamál vítt um land sem lofað var að fengju sérstakan forgang eru víða í molum. Nú er svo verið að flytja frumvarp um breytingar á þessum lögum sem er alveg hárrétt að átti að vera hluti af fjárlögum þegar þau voru afgreidd. Hér er því verið að flytja frumvarp eftir á til að fjárlögin standist í raun.

Öll framkvæmdin varðandi sölu Landssímans og ráðstöfun á söluandvirði hans er skollaleikur og bara sorgleg. Ég legg til að ríkið reyni sem fyrst að ná aftur til sín grunnneti Landssímans svo hægt sé að byggja upp öflugt og gott fjarskiptakerfi sem hið opinbera beri ábyrgð á.