135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[14:50]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru ágæt svör nema að því leyti að þegar um er að ræða neikvætt úrval, sem hv. þingmaður kom ekki inn á, þurfa tryggingafélögin, ef mjög mikið er um slíkt, að hækka iðgjaldið sem þýðir að þeir sem eru heilbrigðir tryggja sig ekki lengur eða tryggja sig erlendis þar sem ekki eru sett sömu skilyrði þar sem tryggingafélögin hafa meiri tækifæri til að vinsa úr neikvæða áhættu. Það þýðir að tryggingafélögin verða með sífellt hærra iðgjald sem endar með því að þau þurfa að loka. Var þetta rætt í nefndinni?

Svo spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum þarf aðrar og strangari reglur hér á landi en allt í kringum okkur í allri Evrópu? Erum við svona framarlega í persónuvernd eða getur verið að við séum of einstrengingsleg í því að skoða þekkingu á erfðaefni?

Nú vil ég benda á að bara með því að líta á hv. þingmann veit ég helling um erfðaefni hans. Ég veit t.d. að hann er karlkyns og að hann er dökkhærður. Ég veit hvað hann er stór og ég veit að hann er hvítur á hörund. (Gripið fram í.)