135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[14:54]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hlutans í viðskiptanefnd. Ég vil byrja á því að þakka frummælanda og hv. þingmanni, formanni viðskiptanefndar, fyrir skilmerkilega ræðu og skilmerkilegar skýringar á niðurstöðu meiri hlutans. Ég deili flestum þeim sjónarmiðum sem hann flutti fram. Álit mitt og þær breytingartillögur sem ég flyt fram byggja á því að ég vil ganga lengra í persónuvernd en frumvarpið mælir fyrir um.

Lögð er til breyting á 82. gr. laga um vátryggingarsamninga sem fjallar um upplýsingaöflun vátryggingafélaga við töku persónutrygginga. Ég tek þar undir sjónarmið sem koma fram í umsögn Persónuverndar dags. 19. nóvember 2007, þó byggi ég fyrst og síðast skoðun mína á áliti Persónuverndar nr. 2005/103 frá 1. júní 2006 sem gengur nákvæmlega í þá átt sem álit mitt fjallar um.

Í umsögn Persónuverndar sem barst viðskiptanefnd við umfjöllun hennar um málið kemur m.a. fram að sú upplýsingaskylda sem frumvarpið byggir á byggist á samþykki sem gengur skemur en svokallað „upplýst samþykki“. Það er verið að tala um einfalt samþykki. Þá er nefnt dæmi um tilvik þar sem skyldmenni neitar að veita samþykki til vinnslu þeirra upplýsinga sem um ræðir. Þessi álitaefni voru rædd á fundum viðskiptanefndar sem hv. framsögumaður hefur gert skilmerkilega grein fyrir.

Ég verð hins vegar að segja að ég treysti niðurstöðu Persónuverndar betur en Fjármálaeftirlitinu og kem betur að því síðar. Ég legg álit Persónuverndar til grundvallar í einu og öllu. Það hefur verið ágreiningur uppi, mjög sérkennilegur, milli Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Persónuverndar hins vegar um hvernig túlka beri þessa 82. gr. Persónuvernd barst á árinu 2005 fyrirspurn þar sem óskað var álits á vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við sölu á líf- og sjúkdómatryggingum í tilteknu tilviki. Eftirfarandi atriði voru meðal þeirra sem lög voru til grundvallar í þeirri fyrirspurn sem Persónuvernd barst og stofnunin veitti álit á:

Í fyrsta lagi var spurt hvort lögmætt væri að afla heilsufarsupplýsinga um umsækjanda frá þriðja aðila, t.d. læknum eða sjúkrastofnunum. Í öðru lagi var spurt um lögmæti þess að afla heilsufarsupplýsinga um foreldra og systkini umsækjenda. Í niðurstöðuorðum Persónuverndar kemur fram að öflun upplýsinga hjá þriðja aðila um einstakling sem sækir um líf- og sjúkdómatryggingu sé óheimil nema fyrir liggi skriflegt, upplýst samþykki hans og honum hafi verið veitt fræðsla í samræmi við 21. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá segir að öflun upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina sé óheimil. Eftir þessu vil ég fara, eindregið.

Ég verð að benda á það að einkalífsréttindi njóta verndar stjórnarskrárinnar en viðskiptahagsmunir ekki. Ef vafi ríkir, ef rekast á lög sem snúa að stjórnarskránni annars vegar og almennum lögum hins vegar, eiga mannréttindaákvæðin að njóta vafans. Það er mitt grundvallarsjónarmið í þessu máli.

Maður spyr sig líka í þessu sambandi: Til hvers að afla allra þessara upplýsinga vegna þess að við útgáfu þessara trygginga byggja tryggingafélögin á heildarmati á lífslíkum Íslendinga og líkum á sjúkdómum? Af hverju að kippa þessum undantekningum út? Af hverju geta ekki allir sótt tryggingar? Það er þá hægt að synja þeim sem veitir upplýsingar um heilsufar sitt.

Það vantar líka inn í þetta mál að upplýsinga hafi verið aflað hjá tryggingafélögum um fjölda þeirra sem var hafnað. Það liggur því miður ekki fyrir, og fleiri atriði.

Ég geri samt ekki stóran ágreining við meiri hluta nefndarinnar og ætla ekki að halda hér uppi löngum ræðum þar að lútandi. Ég vil bara ganga lengra. Minni hlutinn tekur fram að þetta frumvarp sé málamiðlun milli sjónarmiða Persónuverndar annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar.

Það er mín eindregna skoðun að sjónarmið Persónuverndar sem hefur það hlutverk að gæta einkalífsverndar eigi að vera ráðandi við lagasetningu. Ég tel að Fjármálaeftirlitið gangi með áliti sínu inn á verksvið Persónuverndar og skipti sér af málefnum sem koma Fjármálaeftirlitinu ekkert við. Ég minni á að samkvæmt lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er það í verkahring Persónuverndar að sjá um einkalífsverndina. Það er algjörlega skýrt samkvæmt 1. gr. laganna í markmiðslýsingu þeirra.

Í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er hlutverk Fjármálaeftirlitsins skilgreint. Það á samkvæmt þeim lögum ekki að fjalla um einkalífsréttindi eða vernd þeirra. Því fer fjarri. Það á að hafa eftirlit með fjármálum. Mér finnst raunar ótækt að hér sé mælt fyrir frumvarpi sem er málamiðlun milli mannréttinda og viðskiptasjónarmiða. Það stingur mig og þá hugsun sem ég hef á þessu sviði.

Að þessum orðum, þessari hugsun og rökstuðningi sögðum legg ég til breytingartillögu í þá veru að í staðinn fyrir einfalt samþykki þess sem upplýsingarnar veitir skuli liggja fyrir skriflegt samþykki. Ég hef gert orðalagsbreytingu á 4. málsl. 1. mgr. 1. gr. Í frumvarpinu segir:

„Vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skal staðfesta að þær upplýsingar sem hann veitir um sjúkdóma foreldra eða systkina sinna séu veittar með þeirra samþykki, enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað slíks samþykkis.“

Í stað þessa orðalags er lögð til svohljóðandi breytingartillaga, með leyfi frú forseta:

„Vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skal leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða systkina er hann veitir upplýsingar um sjúkdóma þeirra.“

Ég tek skýrt fram að þetta er sú grundvallarlína og efnisafmörkun sem Persónuvernd leggur upp með í þessu máli. Ég byggi alfarið á niðurstöðum þessarar stofnunar sem ég treysti betur til að fara með einkalífsmál en Fjármálaeftirlitinu, enda er það hlutverk Persónuverndar.