135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:39]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru margar hliðar á þessu máli en útgangspunkturinn er einn og aðeins einn. Eins og hv. þingmaður sagði er túlkun hans sú að það sem ekki er sérstaklega bannað er leyfilegt og við göngum út frá því. Þess vegna er verið að skýra þetta ákvæði mjög afdráttarlaust þannig að þrengt er mjög að heimildum tryggingafélaganna til að afla upplýsinga um þriðja aðila þegar heilsufarsmat fer fram á þeim sem er að taka tryggingarnar. Svo einfalt er málið í raun.

Mér fannst tvennt koma til greina. Annaðhvort að þrengja heimildir tryggingafélaganna með þessum hætti eða banna þær alfarið. Ef við hefðum bannað þær alfarið hefðum við staðið frammi fyrir því að þessi tryggingaflokkur hefði einfaldlega horfið út af markaði og val neytenda um persónu- og líftryggingar verið miklu fátæklegra en ella. Þess vegna þótti mér réttlætanlegt að ganga í þessa átt að því fengnu að Persónuvernd er mun sáttari við þessa útfærslu en aðrar sem fram höfðu komið. En þetta er nákvæmlega kjarni málsins. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við að takmarka heimildirnar verulega og erum þar í fararbroddi allra Norðurlandanna.