135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

fyrning kröfuréttinda.

67. mál
[16:44]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp eftir þær farsælu breytingar sem gerðar hafa verið á því í meðferð nefndarinnar. Það voru atriði í upphafi sem ég var ósáttur við, þ.e. að fyrningartími á skaðabótakröfum, einkum í vinnuslysum, yrði færður úr tíu árum í fjögur. Rök mín voru þau að oft er erfitt að sannreyna tjón í vinnuslysum, sérstaklega í alvarlegri slysunum, og tíminn naumur. Í öðru lagi eru bætur vegna varanlegrar örorku af völdum vinnuslysa í raun framtíðarlífeyrir fyrir tekjutap. Sjónarmiðin að baki tíu ára fyrningu eru þarna hin sömu og bak við lífeyri sem fyrnist á tíu árum.

Ferill þessa frumvarps var vandaður. Ég tek fram að ég lýsti þessum athugasemdum mínum eða ábendingum strax á fundi sem hæstv. viðskiptaráðherra átti með nefndinni í upphafi sem er nýmæli hér og mjög gagnlegt. Það var fallist á þessi sjónarmið. Ég tek líka fram að frumvarpssmíðin er mjög vönduð. Það var leitað umsagna og umsagnaraðilar komu sumir í tvígang á fund nefndarinnar. Sú meðferð leiddi til þess að breyting varð á fyrningarfresti þessara skaðabótakrafna úr fjórum í tíu og enn fremur, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson lýsti, var tekið tillit til ábendinga tollstjórans í Reykjavík.

Að lokum þakka ég þessa vönduðu frumvarpssmíð, þakka samstarf í nefndinni og vinnubrögðin sem leiddu til farsællar niðurstöðu og munu leiða til vandaðrar lagasetningar.

Ég vil að lokum halda því til haga að ég kveð hin gömlu lög með nokkrum söknuði. Þau eru 102 ára gömul og hafa reynst ákaflega vel í gegnum tíðina, alveg ótrúlega vel, og svo vel að stofnaður hefur verið hópur manna sem berst fyrir því að þessi lög verði vernduð.