135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

fyrning kröfuréttinda.

67. mál
[16:46]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. nefndarmönnum Ágústi Ólafi Ágústssyni og Atla Gíslasyni að hér er um að ræða mikið mál og nauðsynlegt. Hér er verið að samræma reglur og færa þær til réttlátari og sanngjarnari vegar sem lýtur að fyrningu fjárhagskrafna. Það sem almennt býr að baki fyrningarreglum er að tryggja að endir verði bundinn á skuldbindingar sem stofnað hefur verið til á ákveðnum tíma þannig að réttarstaða neytenda og hins almenna borgara batni verulega og þær verði færðar til þess almenna horfs að fyrningarreglur verði fjögur ár en ekki mismunandi eða lengri nema með þeim undantekningum sem hér er rætt um.

Þær tillögur sem nefndin leggur til tel ég mjög jákvæðar og til að bæta enn frekar mjög góða lagasmíð sem hafði verið unnið að af mikilli vandvirkni uppi í viðskiptaráðuneyti. Ber að þakka þeim sem það gerðu sérstaklega fyrir vönduð vinnubrögð, þetta er flókið mál og umfangsmikið og það tókst mjög vel til við lagasmíð hjá frumvarpshöfundum og svo aftur nefndinni núna. Við ræddum við 1. umr. þær ábendingar sem komu fram frá þingmönnum og öðrum um að færa þyrfti til betri vegar, eins og lagt er til í þessum breytingartillögum, og tók ég undir að það þyrfti að skoða sérstaklega, sömuleiðis á nefndarfundi með viðskiptanefnd sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi áðan að við hefðum átt í byrjun október um málefni frá viðskiptaráðuneytinu og þær lagasmíðar sem þaðan væri að vænta.

Ég held að þetta sé dæmi um mjög heppilega lagasmíð. Frumvarpið kom frá ráðuneytinu og var umfangsmikið og mikið að vöxtum, og auðvitað álitaefni innan þess en í alla staði mjög málefnalega að því staðið. Ábendingar komu frá einstökum nefndarmönnum, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, og frá ýmsum öðrum, Lögmannafélaginu, Neytendasamtökum og öðrum, um einstök ákvæði sem mætti færa til betri vegar þannig að lagasmíðin yrði enn þá betri og að þessar fyrningarreglur sem er núna verið að breyta eftir 102 ára gildi gömlu laganna yrðu sem allra best úr garði gerðar.

Ég er sannfærður um að svo hafi tekist til hér og þakka nefndinni fyrir sérstaklega vandaða vinnu. Ég veit að hún var yfirgripsmikil, tók tíma og það þurfti að skoða mörg álitaefni, eins og kemur fram í því að í nefndarálitinu eru lagðar til nokkrar breytingar frá því sem áður var.