135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

úrvinnslugjald.

242. mál
[16:50]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er lítið mál sem er árlegur gestur í þinginu, breyting á lögum um Úrvinnslusjóð. Nefndarálit okkar er að finna á þskj. 462 en stjórnarfrumvarpið sjálft á þskj. 262. Það snýst um að breyta lítils háttar gjöldum í Úrvinnslusjóði enda er gert ráð fyrir því að gjöldin á hvern vöruflokk sem kemur til endurvinnslu þar standi undir kostnaðinum og því þarf reglulega að breyta hinum álögðu gjöldum eftir því sem kostnaðarþróunin er.

Það háttar svo til með Úrvinnslusjóð að stjórn hans er að meiri hluta skipuð fulltrúum atvinnulífsins sem um leið bera gjöldin. Þannig er tryggt gott samráð um þær tillögur sem hér koma fyrir og nefndin sá ekki ástæðu til að gera neinar breytingar á þeim tillögum.

Í öðru lagi er um leið verið að fresta gildistöku þeirra ákvæða laganna sem gerðu ráð fyrir því að Endurvinnslan yrði hluti af Úrvinnslusjóði nú um áramótin. Það kom fram á fundi nefndarinnar með fulltrúum úr umhverfisráðuneytinu, Úrvinnslusjóði og frá Endurvinnslunni að Endurvinnslan er ekki í stakk búin til að fara í þær breytingar nú um þessi áramót og óskaði því eftir tveggja ára frestun. Það er rétt að það komi fram hér á fundinum að framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar fullvissaði nefndina um að ekki kæmi til þess að aftur yrði óskað eftir frestun að þeim tveimur árum liðnum.

Það er í sjálfu sér ekki meginatriðið hvort þetta nær fram að ganga nú um áramótin eða að tveimur árum liðnum. Það eru ágætar endurheimtur á þeim vöruflokkum sem falla undir Endurvinnsluna og því aðalatriðið að lögin nái fram að ganga þegar allir eru í stakk búnir til að framfylgja þeim.

Nefndarálitið er að finna á þskj. 462 og nefndin hefur lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.