135. löggjafarþing — 46. fundur,  14. des. 2007.

Afbrigði um dagskrármál.

[17:32]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Á hv. Alþingi hefur mótast það vinnulag að afgreiða mikinn fjölda þingmála á síðustu dögum fyrir þinghlé eins og við höfum upplifað í þessari viku. Af þessum sökum er sterk hefð fyrir því að þingheimur veiti afbrigði frá þingsköpum til að afgreiða þau mál sem samkomulag hefur náðst um eða þokkaleg sátt ríkir um milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Samkvæmt 40. gr. þingskapalaga má 3. umr. eigi fara fram fyrr en einni nóttu eftir 2. umr. Til að veita afbrigði frá þeirri grein þarf tvo þriðju hluta þeirra þingmanna er um það greiða atkvæði að samþykkja afbrigðin. Ástæða ákvæðisins, að ein nótt skuli líða á milli umræðna og að tveir þriðju hlutar atkvæða þurfi til að víkja frá þingsköpum, er að koma í veg fyrir að ríkisstjórn og stjórnarþingmenn geti afgreitt á færibandi eða í miklum flýti frumvörp sem ágreiningur ríkir um.

Um þetta mál, frumvarp til laga um þingsköp Alþingis, ríkir ekki sátt og til stendur að afgreiða málið í andstöðu við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.

Hæstv. forseti. Það er ekki góður svipur á því fyrir hæstv. forseta og hv. Alþingi að afgreiða sjálf þingsköp Alþingis með afbrigðum í dag og munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki veita flýtiafgreiðslunni brautargengi með því að samþykkja afbrigði frá þingsköpum.