135. löggjafarþing — 46. fundur,  14. des. 2007.

þingfrestun.

[17:58]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé.

Störf þessa haustþings hafa verið með hefðbundnu sniði. Þingið hefur afgreitt fjárlög og fjáraukalög svo sem venja er til, enn fremur allmikla lagabálka sem varða skipulag Stjórnarráðsins, svo og mörg önnur merk mál.

Sem forseta er mér auðvitað efst í huga afgreiðsla þingskapafrumvarpsins. Um það hefur verið nokkuð deilt, en nú liggur niðurstaðan fyrir. Það er einlæg von mín að þessar breytingar verði Alþingi og störfum þess til heilla, að þær styrki stöðu þingsins og þingmanna og auki veg Alþingis með þjóðinni.

Forseta — í samráði við forsætisnefnd og formenn þingflokka — bíður nú að koma þeim breytingum sem samþykktar hafa verið í framkvæmd á næstunni. Ég vonast til — og legg á það sérstaka áherslu — að eiga góða samvinnu við þingmenn, þingflokka og ríkisstjórn í þeim efnum svo að góð samstaða verði um framkvæmd þeirra miklu breytinga sem við höfum samþykkt með lögum um þingsköp sem er fylgt eftir með fjárlögum sem tryggja fjármagn til þeirra breytinga á starfsháttum sem við höfum tekið ákvörðun um.

Enn fremur bíður það verkefni að móta og setja reglur um þá breyttu starfsaðstöðu sem verður hjá alþingismönnum við samþykkt fjárveitinga á fjárlögum 2008 til starfa Alþingis. Þar er um mikla breytingu að ræða. Við þurfum að vanda allan undirbúning í þeim efnum og hafa grunninn traustan sem við nú byggjum á.

Það er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um farsæla framkvæmd þingskapanna og þeirra breytinga sem ætlað er að gera á starfsaðstöðu þingmanna.

Mér er einnig á þessari stundu ofarlega í huga þakklæti fyrir það hversu vel hefur tekist til um lausn húsnæðismála þingsins við fjárlagaafgreiðsluna í ár. Með mjög myndarlegri fjárveitingu er stigið mikilvægt skref í uppbyggingu á Alþingisreitnum. Nú verður hægt að hefjast handa og vinna við undirbúningsframkvæmdir og hönnun þess húsnæðis sem svo lengi hefur verið beðið eftir. Í því sambandi þurfum við að horfa vandlega til framtíðar og huga vel að þörfum Alþingis og alþingismanna á næstu árum og áratugum. Ég mun beita mér fyrir samráði við þingmenn og þingflokka í þeirri vinnu enda hljótum við að hafa hliðsjón af ábendingum þingmanna um hvernig best sé að haga þeirri aðstöðu sem þeim verður búin í nýju og endurbættu húsnæði hér á Alþingisreitnum.

Ég vil að lokum færa þingmönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis, þakkir fyrir gott samstarf á haustþinginu og óska öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og þakka samstarfið á því ári sem nú er brátt á enda.

Þeim sem eiga um langan veg að fara heim óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.