135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:34]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir góðar óskir í garð okkar alþingismanna og starfsmanna Alþingis. Ég óska alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs. Jafnframt sendi ég landsmönnum öllum mínar bestu nýársóskir.

Nú, er við komum saman að nýju eftir þinghlé um jól og eftir kjördæmadaga til þessa vetrarþings, hafa ný lög, nr. 160 frá 20. desember 2007, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis tekið gildi. Þessar breytingar munu vissulega setja mark sitt á þingstörfin og munum við að sjálfsögðu starfa eftir nýjum lögum um þingsköp frá fyrsta degi vetrarþings. Ég vænti góðs samstarfs við hv. alþingismenn um þessar nýju vinnureglur okkar á Alþingi.

Endurskoðuð starfsáætlun þingsins frá áramótum var samþykkt á fundi forsætisnefndar fyrr á þessum degi og hafði áður verið kynnt formönnum þingflokka og ráðherrum.

Óundirbúinn fyrirspurnatími er fremst á dagskrá þessa fundar en þess má vænta að þannig verði framvegis á mánudögum og fimmtudögum í reglubundnum þingvikum en á þriðjudögum og miðvikudögum verði fremst á dagskrá umræður um störf þingsins. Hálftíma verður varið til þessara dagskrárliða í upphafi þingfunda.

Ég vona að breyttar reglur um ræðutíma og lengri starfstími þingsins verði til þess að mjög dragi úr kvöld- og næturfundum. Samkvæmt núgildandi lögum um þingsköp er reynt að stýra kvöldfundum á einn dag í viku, þ.e. þriðjudaga, en ég vona að ekki þurfi að nýta þessa heimild nema aðkallandi sé að ljúka málum. Ég vil hins vegar af þessu tilefni fara þess á leit við þingmenn og starfsmenn stjórnmálaflokka að þeir boði síður til almennra funda með þingmönnum á þriðjudagskvöldum en aðra daga vikunnar.

Hluti þeirra breytinga sem við gerðum fyrir jól á þingsköpum varðar störf nefndanna og hef ég í hyggju að eiga fljótlega fundi með formönnum nefndanna um ýmis atriði sem breytingunum fylgja.

Reglur um störf og starfskjör aðstoðarmanna þingmanna eru nú í mótun. Endanleg útfærsla liggur ekki fyrir en ég bind vonir við að hið nýja fyrirkomulag geti tekið gildi 1. mars nk. og kynna megi reglur og samningsform á næstu vikum. Mér finnst miklu skipta að vel sé vandað til allra reglna sem setja þarf og að undirstaðan sé traustlega gerð. Í því skyni mun verða flutt frumvarp um breytingar á lögum um þingfararkostnað svo hið nýja fyrirkomulag aðstoðarmanna sé byggt á traustum lagagrunni.

Það er trú mín að þær breytingar sem nú eru orðnar eða eru í vinnslu muni leiða til vandaðri vinnubragða á Alþingi og styrkja þingið. Ég vona að allir flokkar leggi lóð sín á vogarskálarnar til þess að breytingarnar takist vel og verði þingi og þjóð til farnaðar.

Ég óska hv. alþingismönnum öllum velfarnaðar í störfum þeirra á þessu vetrarþingi.