135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

embættisveitingar ráðherra.

[13:43]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er ekki nýtt á Íslandi að embættisveitingar séu umdeildar. Þar hafa í gegnum tíðina allir stjórnmálaflokkar komið við sögu og sætt gagnrýni fyrir embættisveitingar af öllu tagi. (Gripið fram í: Ekki allir.) Ég vil hins vegar taka það sérstaklega fram varðandi þau þrjú mál sem hv. þingmaður nefndi að ég tel að í þeim öllum hafi ráðherra verið vel innan marka valdheimilda sinna og að þessar embættisveitingar hafi verið unnar og undirbúnar eftir bestu samvisku viðkomandi ráðherra. Ég tel þann málflutning sem hv. þingmaður vitnaði til í grein í Fréttablaðinu í dag viðkomandi höfundi til minnkunar og ekki til sóma að viðhafa málflutning af því tagi um þetta tiltekna mál.

Það er auðvitað þannig í stjórnkerfi okkar að ráðherranum er falið að fara með hið endanlega vald í málum sem þessum. Þar verður hann að beita eigin dómgreind innan þeirra lagareglna sem gilda um hvert mál fyrir sig og það hefur verið gert í þessum málum. Ég fullyrði að iðnaðarráðherra hefur í sínum tveimur embættisveitingum stuðst við gild rök og bestu samvisku og dómgreind og sama á að sjálfsögðu við um hinn setta dómsmálaráðherra hvað varðar setningu héraðsdómara.

Matsnefndir og hæfnisnefndir eru góðar og þær eru nauðsynlegar til þess að fara yfir mál en þær eiga ekki að hafa síðasta orðið í málum sem þessum og það vita auðvitað allir sem þessi mál hafa kynnt sér. Ég hef sjálfur sætt ámæli fyrir skipun tveggja hæstaréttardómara sem settur dómsmálaráðherra. Ég veit ekki betur en að þeir dómarar hafi báðir tveir staðið sig mjög vel í starfi og dettur engum manni í hug að gagnrýna störf þeirra í dag þó að skipanirnar hafi verið umdeildar á sínum tíma. Ég hafna þess vegna þeirri gagnrýni sem fram er komin. Ég tel að hún sé ekki á málefnalegum grunni reist og ég tel að ráðherrarnir báðir hafi verið fyllilega innan sinna valdheimilda.