135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Hitaveita Suðurnesja.

[14:08]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Í kjölfar einkavæðingar og átaka um eignarhald á Hitaveitu Suðurnesja síðastliðið sumar fór hæstv. iðnaðarráðherra mikinn og lýsti því m.a. yfir að það væri forgangsverk að tryggja forræði almennings yfir jarðhitaauðlindinni. Hann tilkynnti að í smíðum væri frumvarp í hans ráðuneyti sem mundi tryggja það.

Tilefni þessara yfirlýsinga voru eðlilegar áhyggjur heimamanna, bæði sveitarstjórnarmanna og íbúa á Reykjanesi, sem óttuðust að íbúar mundu í kjölfar einkavæðingarinnar eiga heitt og kalt vatn undir geðþótta og verðskrá einkaaðila, þ.e. Geysis Green Energy, FL-group, Glitnis, Atorku og ef til vill fleiri.

Um hugmyndir hæstv. iðnaðarráðherra um að skipta orkusviðinu upp í samkeppnisrekstur og sérleyfisrekstur sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, m.a. að heimamenn þar legðu áherslu á að af hálfu löggjafans verði forgangur almennings að auðlindunum tryggður og þær verði í samfélagseigu. Það er það sem skiptir máli í þessu sambandi, sagði Árni Sigfússon.

Hannes Friðriksson, íbúi í Reykjanesbæ, sem var forgöngumaður þess að yfir 51% kosningabærra manna á Reykjanesi skoraði á sveitarstjórnir sínar að halda eignarhaldi auðlindanna heima í héraði, lýsti sömu áhyggjum í viðtali við Morgunblaðið. Hann kvaðst óttast að orkulindir Hitaveitu Suðurnesja kæmust í meirihlutaeign einkaaðila og þá yrði arðsemi þess fjár sem þeir hafa lagt fram látin ráða för.

Flokksbróðir hæstv. iðnaðarráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn í Reykjavík, hefur lýst yfir sömu áhyggjum og óskað eftir sérstökum viðræðum við forsætisráðherra þar um, sem hann hefur reyndar hunsað.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagst mundu koma í veg fyrir að auðlindin sjálf, jarðhitinn á Reykjanesi, komist í hendur einkaaðila. Nú hafa borist þær fregnir að frumvarpið sé tilbúið, hafi verið kynnt í ríkisstjórn en jafnframt að það nái alls ekki hinum yfirlýsta tilgangi, nái einfaldlega ekki til Hitaveitu Suðurnesja.

Því er eðlilegt að spurt sé: Er þetta rétt eftir haft? Er ráðherrann sáttur við vegferð sína og ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) gagnvart íbúum á Reykjanesi í þessum efnum?