135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Hitaveita Suðurnesja.

[14:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Veit hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hvað hún er að segja hér? Hv. þingmaður hvetur Alþingi til þess að brjóta stjórnarskrána. Það er ekkert öðruvísi.

Hv. þingmaður mun fá þetta álit og önnur sem fjalla um þetta mál líka. Hún getur þá velt vöngum yfir því og fengið alla sérfræðinga til þess að skoða hvort niðurstaða þessa lögfræðings, þessa sérfræðings, sé rétt eða ekki. Ég hef engan áhuga á því að brjóta stjórnarskrána. (Gripið fram í.)

Ég sit í stjórnarskrárnefnd og það er ekki hægt að túlka mál hv. þingmanns öðruvísi en svo að hún gefi afskaplega lítið fyrir stjórnarskrána og sé sama þótt hún sé brotin. Það er mergurinn málsins.

Í annan stað þá virðist sem hv. þingmaður hafi ekki nokkra einustu þekkingu á því hvernig jarðhitamálum á Suðurnesjum er háttað. Þar eru átta til tíu jarðhitakerfi, sjálfstæð. Obbinn af þeim ónýttu orkulindum sem er að finna á Suðurnesjum er innan vébanda sveitarfélaga. Þannig munu lögin ná yfir það. (Forseti hringir.)

Hérna er einfaldlega um það að ræða að stjórnarskráin bannar að farið sé í hin blönduðu fyrirtæki. Það eru tvö (Forseti hringir.) ákvæði stjórnarskrárinnar sem þar koma við sögu.