135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir miklum vonbrigðum með skýringu hv. þingmanns á rökstuðningnum fyrir því að Félag ábyrgra feðra skuli þurfa að eiga fulltrúa í Jafnréttisráði. Það er eins og hv. þingmaður og jafnvel nefndin öll geri sér ekki grein fyrir að það er sameiginlegt verkefni karla og kvenna að tryggja jafnrétti kynjanna samkvæmt lögum. Ég spyr: Hvers vegna var ekki bara einhverju fótboltafélagi, þar sem strákar eru ráðandi, boðin seta í ráðinu? Mér finnst þessi rök vera afar veik og byggð á afar veikum grunni en við munum auðvitað ræða það nánar í umræðum um málið.

Ég vil undirstrika það og þakka fyrir að fá að heyra það frá hv. þingmanni að þetta hafi verið einhvers konar málamiðlun þeirra sjónarmiða sem tekist var á um í nefndinni um það hverjir ættu sæti í ráðinu.

Ég harma hins vegar og lýsi verulegum vonbrigðum með að fulltrúi frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum skuli tekinn út úr Jafnréttisráði. Mér finnst það mjög alvarlegt því að Háskóli Íslands er flaggskip á sviði rannsókna í félagsvísindum og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum er í mínum huga fullkomlega sjálfsagður og nauðsynlegur aðili í Jafnréttisráði.

Varðandi vottunarkerfið þá kemur fram í svari hv. þingmanns að þetta sé frumraun, að íslensk stjórnvöld ætli að fara að kosta það og sennilega setja ómælda fjármuni í það að búa til vottunarkerfi sem kann að vera að aðrar þjóðir, sem kannað hafa möguleika á að setja upp slíkt vottunarkerfi, hafi dæmt úr leik, hafi kannski komist að því að það væri nánast óframkvæmanlegt að koma á kerfi af því tagi sem verið er að leggja til hér. Mér þykir þetta byggja á mjög veikum grunni, ég sé ekki að menn hafi nokkrar rökstuddar hugmyndir um hvernig framkvæma eigi vottun af þessu tagi og ég lýsi því yfir að það eru mikil vonbrigði að ekki skuli þá hafa verið áætlaðir einhverjir fjármunir í það að byrja á rannsóknunum (Forseti hringir.) á árinu 2008 þar sem það á bara að taka tvö ár að hanna módelið.