135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði í andsvari mínu áðan að ég hefði ekki athugasemdir við markmið þessara laga eða innihald þeirra nema í tengslum við atriði sem lúta ákveðnum formalisma. Það er eðlilegt að við á löggjafarsamkundunni skoðum formið og gefum því gaum.

Ég er sátt við innihaldið. Við höfum lýst því yfir, þingmenn frá öllum flokkum, að við séum sátt við markmið þessara laga. Við höfum hins vegar deilt um hvernig við tryggjum framtíð þess markmiðs. Við höfum í 30 ár haft lög sem kveða á um jafnrétti karla og kvenna en höfum ekki náð að praktísera þau vegna þess að eitthvað hefur verið rangt í forminu. Við þurfum að leiðrétta formið til að við náum fram þeim sjónarmiðum sem löggjöfin kveður á um. Það er það sem ég segi: Ég vil tryggja að þau sjónarmið sem rista dýpst og líklegust eru til að ná fram markmiðum þessa frumvarps eigi rödd við borð Jafnréttisráðs. Það finnst mér skipta miklu máli.

Ég vil biðja hv. þingmann að gera mér ekki upp skoðanir. Ég hef ekki sagt að Félag um foreldrajafnrétti sé minna virði en önnur félög. Hv. þingmaður má ekki gera mér upp þá skoðun. Það hef ég ekki sagt. Ég hef einungis sagt að það þurfi að vera röksemdir fyrir því hvaða áhugamenn um jafnrétti eru kallaðir að borði Jafnréttisráðs. Það eru engin rök fyrir því að þetta félag skuli sérstaklega kallað þar inn að frumkvæði nefndarinnar, nema af því að hv. þingmenn hafa sagt að karlar þurfi að koma að umræðunni um jafnréttismál. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmönnum um það. Karlmenn þurfa að koma að því og vera virkir í að koma á jafnrétti kynjanna í samfélaginu. En líkurnar á því aukast ekki með því að þessi félagsskapur eigi sæti í Jafnréttisráði.