135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessu andsvari komu fram nokkuð alvarleg ummæli frá hv. þingmanni þar sem hann segir frá því að í umræðunni hafi komið upp einhvers konar vantraust atvinnurekenda á Jafnréttisstofu, að upp hafi komið einhvers konar ásakanir um að vinnan verði allt of fræðileg og uppskrúfuð.

Ég held, hæstv. forseti, að hér sé að gerast eitthvað sem við þurfum að fara dýpra í og það er umræðan í félagsmálanefnd. Ég held að kannski þurfi meira af umræðunni sem fram fór í félagsmálanefnd að koma upp á yfirborðið í þessari umræðu. Ef umræðan í félagsmálanefnd og rökstuðningurinn fyrir breytingartillögum félagsmálanefndar er á því plani sem hv. þingmaður upplýsti okkur um, að þar hafi komið fram einhverjar ábendingar frá atvinnurekendum um að vinnan við jafnréttismálin og það að jafna stöðu kynjanna sé allt of fræðileg og uppskrúfuð, þá tel ég að mjög alvarlegir hlutir séu á ferðinni og ástæða sé til að taka málið aftur til nefndar og hreinsa þau mál sem verið er að koma með inn í þessa umræðu á Alþingi Íslendinga. Mér finnst þetta gefa til kynna að þarna hafi komið fram einhver sjónarmið frá atvinnurekendum um að þeir vantreysti Jafnréttisstofu og það vantraust sé kveikjan að vottunarkerfinu. Ef þetta er rétt, þá finnst mér það mjög alvarlegt.