135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:17]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann hafi barist í nefndinni fyrir ýtrustu hugmyndum varðandi vottun og staðla í þessum efnum en það er þýðingarmikið að fá það sjónarmið fram vegna þess að það er ljóst að sá hinn sami hv. þingmaður varð fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna, með þá tillögu sem liggur fyrir í nefndarálitinu og í breytingartillögum nefndarinnar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal óttast að þessi tillaga færi okkur eitthvert kerfi þar sem er hætta á innantómri skriffinnsku og óttast um framkvæmd laganna út frá þeim hugmyndum eða tillögum sem nefndin kemst að sameiginlegri niðurstöðu um.

Þetta færir mér heim sanninn um að málamiðlunartillagan sem liggur fyrir í áliti nefndarinnar sé slæm. Hún sýnir í raun og veru hvorki það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur barist fyrir né heldur það sem við sem höfum viljað fara lengst í hina áttina viljum, þ.e. að láta völdin og úrræðin fara í hendur Jafnréttisstofu, hún gerir því í raun og veru hvorugu sjónarmiðinu nægilega hátt undir höfði til þess að úr því verði eitthvað vitrænt. Mér sýnist hv. þm. Pétur H. Blöndal staðfesta það sem ég hef verið að segja hér, þ.e. efasemdir mínar um vottunarhugmyndina, að hún verði aldrei að neinu viti.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað hefur hv. þm. Pétur Blöndal fyrir sér í því að konur sæki ekki fram eins og hann orðaði það eða geri ekki kröfu um að þær séu metnar að verðleikum? Þær upplýsingar sem ég hef úr rannsóknum sem ég hef kynnt mér í þessum efnum segja þvert á móti að konur sæki fram og þær geri kröfu um það að komast í betur launuð störf. Hins vegar séu það karlarnir sem hafa valdið sem láti þeim ekki í té þau áhrif sem þær þurfa eða koma í veg fyrir að þær sæki fram.