135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:22]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan að það hefði ekki náðst neinn árangur og baráttuaðferðirnar væru rangar. Ég beið eftir góðum leiðbeiningum um hvernig ætti að berjast til að ná meiri árangri en þær komu ekki en það var þessi tónn sem kom frá hv. þingmanni um að konur sæki ekki fram. Þær verði að vera grimmari og þær verði að gera kröfur um að vera metnar að verðleikum. Það stuðaði mig svolítið hvernig þetta var sett fram. Ég tel að konur hafi sótt fram, þær séu grimmar og þær vilji vera metnar að verðleikum.

Hv. þingmaður vitnaði í aðalfund Seðlabankans. Ég vil leyfa mér að taka dæmi sem er hérna við sjóndeildarhringinn. Lítum á Alþingi Íslendinga, þennan sal hér. Af hverju eru ekki fleiri konur hér? Af hverju varð svona mikið bakslag árið 2003 eftir að við náðum betri árangri árið 1999? Af hverju fækkaði konum um 5% á þinginu, ef maður horfir bara þröngt í þessum sal? Meginskýringin á þessu stóra bakslagi á þeim tíma var flokkur hv. þm. Péturs Blöndals, Sjálfstæðisflokkurinn. Konum fækkaði verulega hjá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Að minnsta kosti kusu konurnar ekki Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum þar á eftir, það var alveg sannað með rannsóknum þannig að konur hrökkluðust frá Sjálfstæðisflokknum af því að það voru svo fáar konur sem voru þar í boði en það voru konur sem gáfu kost á sér í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Þær sóttu fram, þær voru grimmar og þær vildu vera metnar að verðleikum en þær náðu ekki árangri. Hvernig ætlar hv. þm. Pétur Blöndal að skýra það?