135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi fjalla í nokkrum orðum um þetta mál eins og það stendur eftir umfjöllun í nefndinni og breytingartillögur sem fram hafa komið. Ég vil vísa til ræðu minnar við 1. umr. málsins þar sem ég lýsti yfir stuðningi við markmið málsins og það að menn sæki fram í þessum efnum.

Ég vil geta þess að í nefndaráliti kemur fram að ég hafi verið fjarstaddur við afgreiðslu málsins úr nefndinni. Fyrir því er sú ástæða að ákveðið var að vinna mjög mikið í málinu á síðustu dögum þinghaldsins fyrir jól jafnvel þótt ekki lægi fyrir að meiningin væri að afgreiða frumvarpið sem lög fyrir jól. Þá var mikill annatími vegna mála eins og fjárlagafrumvarps og annarra mála sem þingið stefnir eðlilega að því að ljúka afgreiðslu á í desember. Þess vegna var mjög óheppilegt að halda marga aukafundi í félagsmálanefnd á þeim dögum. Það varð til þess að ég gat ekki sótt nefndarfundi þá daga vegna anna við önnur þingstörf sem urðu að ganga fyrir. Það er skýringin á því að ég skrifa ekki undir nefndarálitið, að ég tók ekki þátt í nefndarstörfum síðustu daga fyrir jól. Ég tel reyndar að þetta vinnulag hafi ekki verið heppilegt og ekki til eftirbreytni. Ég vænti þess að menn gæti þess framvegis að haga álagi í nefndum í samræmi við aðstæður. Ég bendi á að það er mjög gott svigrúm til að vinna í þingnefndum í janúar og febrúar fram að páskum sem hefði verið mjög góður tími til að fara vandlega yfir þetta mál á vorþingi, sem reyndar heitir núna vetrarþing samkvæmt nýju þingsköpunum ef ég man rétt.

Ég mun með vísan til nýrra ákvæða þingskapalaga óska eftir því að þetta mál gangi til félagsmála- og trygginganefndar milli 2. og 3. umr. eins og kveðið er á um að gert verði ef þingmaður óskar þess og ef málið tekur breytingum, eins og það augljóslega gerir. Ég vænti þess að geta þá tekið þátt í störfum nefndarinnar og farið betur yfir einstök atriði sem ég hafði áhuga á að ræða í þingnefndinni, a.m.k. reifa þau sjónarmið og ég vænti þess að vel verði tekið undir það.

Ég held að skynsamlegt væri, með breyttu vinnulagi, að fá til nefndarinnar, ég hugsa að það nægði að fá athugasemdir munnlega frá þeim sem höfðu verulegar athugasemdir við frumvarpið, t.d. Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Sambandi ungra sjálfstæðismanna og Samtökum atvinnulífsins. Það kann að vera að umsögn þeirra, sem var að miklu leyti neikvæð í garð frumvarpsins, verði önnur og jákvæðari eftir þær tillögur sam lagðar hafa verið fram af félagsmálanefnd um breytingar á málinu. Það væri gott að fá fram afstöðu áðurnefndra samtaka til málsins að gerðum þeim breytingum sem fyrir liggja tillögur um. Ég held að það gæti verið jákvætt fyrir málið að fá endurskoðað mat neikvæðra umsagnaraðila, sérstaklega ef þeir fallast á að breytingarnar séu til góða og draga úr gagnrýni sinni eða falla frá henni. Ég vildi óska eftir því við hv. formann nefndarinnar að hann tæki þetta til athugunar fyrir vinnu nefndarinnar í málinu á milli umræðna.

Ég vil árétta þau sjónarmið sem ég setti fram í málinu. Mér finnst frumvarpið líta afar þröngt á jafnrétti og um of takmarkandi þar sem ekki er tekið á mismun á milli kynja eða milli fólks eftir búsetu. Það er heimilt samkvæmt þessu frumvarpi og það tekur ekki á því þótt mismunandi laun séu greidd fyrir sama starf á ólíkum stöðum á landinu, jafnvel hjá sama fyrirtæki. Mér sýnist að það brjóti ekki í bága við ákvæði frumvarpsins að framkvæmdin sé með þeim hætti að t.d. konur á höfuðborgarsvæðinu hafi hærri laun fyrir sama starf og konur á Norðurlandi fyrir sama starf, jafnvel hjá sama fyrirtæki. Ég tel að auðvitað eigi að horfa á búsetuna líka þegar menn skoða þessi mál og vega og meta það misrétti sem kann að vera fyrir hendi. Það á að leitast við að draga úr því misrétti ekki síður en því sem frumvarpinu er ætlað að taka á.

Það kemur reyndar fram í umsögn eins umsagnaraðilans að eitt af því sem hefur verið mest áberandi í byggðaþróun undanfarna áratugi sé brottflutningur kvenna af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að launakjör, starfsaðstæður og atvinnumöguleikar, eru lakari þar en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er auðvitað misrétti sem þarf að taka á og hafi menn áhuga á því að vinna að því að draga úr fólksflóttanum af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið verður að taka á þessum þætti málsins og mér finnst það falla undir fyrirsögn málsins um jafna stöðu, ekki bara jafnan rétt á milli karla og kvenna heldur líka jafna stöðu.

Mér finnst líka að í 26. gr. frumvarpsins hefði átt að kveða á um það og setja fram þá stefnu, sem væri þá stefna Alþingis, að í þeim tilvikum þar sem verulega hallar á milli kynjanna í einstökum atvinnugreinum, þar sem mjög margir eru af öðru kyninu umfram hitt, eigi að setja fram þá stefnu að þegar auglýst er og ráðnir starfsmenn þá sé hafður forgangur á því kyni sem fámennara er í viðkomandi grein til að vinna gegn muninum. Það er ekki gengið svo langt í frumvarpinu heldur látið duga að hafa það á valdi auglýsandans hverju sinni hvort gripið sé til þessa ákvæðis þannig að það er heimilt að beita því en ekki almenn stefna sem skylt er að fara eftir.

Í þriðja lagi bendi ég á að það kann að torvelda svolítið framkvæmd frumvarpsins að horfa á launin eftir störfum. Sú þróun er í gangi, sérstaklega á almennum vinnumarkaði, að störfin verða síður sambærileg en áður. Þessi þróun er mjög hröð og hennar gætir líka í starfi verkalýðshreyfingarinnar sem er smátt og smátt að breyta starfi sínu frá því að semja um laun fyrir tiltekin störf yfir í það að aðstoða einstaklingana sjálfa við að semja um launakjör. Störfin eru svo breytileg. Ég hugsa að ef þróunin heldur svona áfram þá verði varla hægt að gera samninga eins og var áður fyrr, þar sem allir þeir sem unnu í tiltekinni atvinnugrein unnu eftir sama kjarasamningi, sömu launatöflu og höfðu sömu laun. Þetta er að breytast.

Ég held að það sé ákaflega erfitt að ráða við þessa þróun og sýna fram á að það sé svo og svo mikill munur á launagreiðslum milli karls og konu. Störfin sem þau gegna geta verið ólík að einhverju leyti og það verður endalaus þræta um það hvernig eigi að meta mismunandi störf og launin í samanburðinum. Ég er hræddur um að þessi þróun verði málinu erfið og menn þurfi að velta fyrir sér til hvaða ráða er best að grípa til að bregðast við. Þetta mun þýða að í framkvæmdinni verða lögin meira og minna gagnvart opinberum aðilum sem eru fastari í þessu formi, þar sem þróunin er ekki eins hröð og á almennum vinnumarkaði, að þetta verði fremur löggjöf sem lýtur að opinberum aðilum.

Í þessu máli eru tillögur sem horfa til bóta frá því sem menn glíma við í gildandi lögum. Bryddað er upp á úrræðum sem ekki hafa verið til staðar í þeim tilgangi að reyna að ná betri árangri. Þótt ekki sé hægt að segja með vissu að nýju úrræðin hafi þau áhrif sem ætlast er til þá held ég að það verði að fallast á að rétt sé að grípa til þeirra í þeirri von að árangur náist umfram það sem verið hefur, svo sem með því breyta hlutverki Jafnréttisstofu þannig að hún geri bindandi úrskurði. Ég held að það úrræði eigi eftir að skila jákvæðum árangri.

Ég held líka að ákvæðin í 16. og 17. gr. frumvarpsins séu til bóta. Að greina tölfræðiupplýsingar á þann veg sem gert er ráð fyrir í 16. gr. held ég að hjálpi þeim sem eiga að vinna að jafnréttinu og ekki síður einstaklingunum sjálfum, að hafa þessar upplýsingar tiltækar. En ég hefði viljað bæta inn í 16. gr. ákvæði eða a.m.k. að sjá til þess að þeir sem vinna þessi talnagögn greini þau eftir búsetu, eftir landshlutum, en ekki bara eftir kynjum. Það þarf líka að skoða þá þróun. Þær tölur sem tiltækar eru eru þó nægjanlega góðar til að segja okkur að þar er verulegur munur á og fer vaxandi. Það er mismunur sem bitnar á báðum kynjum eftir búsetu og sá mismunur er auðvitað jafnslæmur og annar mismunur í launum. Launamunur vegna búsetu er ekkert betri en launamunur vegna kynferðis, a.m.k. ekki gagnvart þeim sem fær launin. Hann er jafnilla settur og geldur þess jafnilla.

Virðulegi forseti. Ég hef staldrað við einn þátt í 1. gr. sem ég er í sjálfu sér er ekki endilega andvígur. Það á ekki að skilja það þannig. En það segir í i-lið 1. gr. að það eigi að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Auðvitað held ég að segja megi að allir séu á þeirri skoðun að vinna eigi gegn því, en fyrst og fremst að vinna gegn ofbeldi. En miðað við það sem fram kemur í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að tala um ofbeldi gagnvart konum. Til þess að endurspegla það eiga sérstök samtök sem starfa á þessu sviði að tilnefna fulltrúa í Jafnréttisráð.

Virðulegi forseti. Ég er ekki tilbúinn til að fallast á að karlmenn séu ofbeldismenn, það sé kynbundinn og eðlislægur þáttur í karlmönnum. Ég get alveg fallist á það sem blasir við, að ákveðnir karlmenn beita konur ofbeldi en það er líka til annað ofbeldi en það. Ég held að ofbeldi gangi í báðar áttir og sé ekki kynbundið, ég held það. Það má vel vera að það sé búið að sanna hið gagnstæða. Þá fæ ég vonandi upplýsingar um það og endurskoða þá afstöðu mína í því ljósi. En ég er ekki tilbúinn til að skrifa upp á að líta eigi á karlmenn almennt sem ofbeldismenn. Ég lít svo á að það séu einstaklingar meðal karlmanna sem beita ofbeldi og ég tel það afleitt. En þegar verið er að tala um kynbundið ofbeldi og stimpla karlmennina almennt þessu finnst mér stundum að það sé með sama hætti og stundum er talað um útlendinga, þegar útlendingar eru stimplaðir sem ofbeldismenn eða sérstaklega hættulega menn. Ég tel það algerlega fráleit sjónarmið.

Ég tel að það sé ekki hægt að rekja svona hluti til kynþáttar eða kynferðis. Ég hef ekki séð nein gögn sem sanna að menn af tilteknu þjóðerni, hvort sem að eru karlmenn eða konur, séu meiri ofbeldismenn en fólk af öðru þjóðerni. Það held ég ekki. Sama gildir um karlmenn. Ég get ekki fallist á það að karlmenn séu almennt þannig að setja þurfi í lög ákvæði til að vinna gegn ofbeldishneigð þeirra.

Ég veit ekki hvort þetta er endilega það sem vakir fyrir þeim sem setja þetta fram í frumvarpinu. Það kann að vera að ég oftúlki þetta. En mér finnst mega lesa það úr textanum. Og þegar samtökin Stígamót og Kvennaathvarfið, sem eru merk samtök sem unnið hafa gott starf, eru sérstaklega sett inn í Jafnréttisráð: Hvaða sjónarmið eiga þau að færa fram? Sjónarmið fólks sem hefur lífsreynslu af ofbeldi karlmanna gagnvart konum. Eru það sjónarmiðin sem þarf í Jafnréttisráð, að karlmenn séu ofbeldismenn? Þarf að setja þar inn konur sem hafa glímt sérstaklega við það? Ég er ekki viss um að það sé nægjanlegt jafnvægi í þessum málum, virðulegi forseti. Ég hefði kosið að menn litu almennar á málið og ljóst væri að ekki yrði með þessu sett íslensk lög með texta sem hefði þennan skilning á karlmönnum.

Ég sé, virðulegi forseti, að það sneiðist um tímann en ég hef sérstakar athugasemdir við 2. mgr. 15. gr. Ég vek athygli á því að sú málsgrein var ekki í því frumvarpi sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna náðu samkomulagi um og skiluðu til ráðherra. Þar er svo búið um hnútana að valdið er tekið úr höndum þeirra sem eiga að tilnefna menn, eða er gefinn kostur á því, í nefndir, ráð eða stjórnir á vegum ríkisins og sveitarfélaga, og það fært í hendur ráðherra. Ég veit ekki hver fær það vald hjá sveitarfélögunum, forseti sveitarstjórnar, bæjarstjórinn eða sveitarstjórnin sjálf sem á að afgreiða það. Mér finnst, a.m.k. út frá starfi stjórnmálaflokkanna, algerlega óviðunandi að setja lög sem binda hendur stjórnmálaflokkanna til að tilnefna fulltrúa sína í störfum af þessum toga. Mér finnst það ekki lýðræðislegt. Stjórnmálaflokkarnir starfa á grundvelli umboðs sem þeir sækja til kjósenda og kjósendur sem gera upp málin við flokkinn í almennum kosningum. Ég sætti mig ekki við það að einhverjir ráðherrar fái slíkt vald og eigi að leiðrétta hlut kjósenda. Mér finnst að Alþingi geti ekki látið svona lagasetningu frá sér þar sem menn telja sig hafa vit fyrir kjósendum.

Eigi stjórnmálaflokkur að tilnefna fulltrúa í nefnd í einhverju starfi þá á hann að gera það og ráða því hver sá fulltrúi er en ekki hæstv. félagsmálaráðherra, viðskiptaráðherra eða einhver annar. Það er fráleitt. Ég geri miklar athugasemdir við þetta ákvæði sem var bætt inn í meðförum ríkisstjórnarinnar en bendi á að þetta er greinilega ekki eins gott ákvæði og ætla mætti þegar kemur að ríkisstjórninni sjálfri. Hvað gerir hún þegar kemur í lagatextanum að skipun Jafnréttisráðs? Þá á þetta ekki við. Frumvarpið gerir ráð fyrir sérmeðferð fyrir Jafnréttisráð. Þar er skipað, eftir því sem þar segir í frumvarpinu, eftir annarri útfærslu en gildir í frumvarpinu varðandi aðra. Það dæmir málið best að ríkisstjórnin telur sig ekki geta stuðst við þessa reglu sem hún vill að gildi að öðru leyti þegar kemur að skipun í Jafnréttisráð. Þá eiga tilnefningaraðilar að ráða því hver er valinn fulltrúi en það er ekki í höndum ráðherra að velja á milli fulltrúa sem nefndir eru.

Virðulegi forseti. Ekki fleira um þetta mál að sinni. Ég ítreka það sem fram kom hjá mér í upphafi og í 1. umr. um málið um almennan stuðning við málið og markmið þess.