135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að setja mig á háan hest yfir hv. þingmanni með því að halda því fram að ég viti eitthvað meira en hann um þessi mál. Ég tel orðaskipti okkar hér styrkja og styðja það sjónarmið mitt að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum eigi að eiga aðild að Jafnréttisráði og eigi að vera virkur þátttakandi í því að móta framkvæmd þessarar löggjafar. Þar eru saman komnar upplýsingar um þær rannsóknir sem við þekkjum bestar.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni og þingheimi öllum á að Mannréttindaskrifstofa Íslands leggur til að í þessum lögum verði sett fram skilgreining á kynbundnu ofbeldi, t.d. í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Ég bendi á að við erum aðilar að sérstökum samningi um það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út. Mannréttindaskrifstofa leggur til að í lögunum standi, með leyfi forseta:

„... ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, (Forseti hringir.) þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.“