135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur skýrt fram í 16. gr. Ekki er ætlunin að talnaefnið sé þannig niðurgreint að hægt sé að átta sig á mismunandi launakjörum eftir búsetu. Ég sé því ekki að stefnt sé að því að safna þeim upplýsingum saman. Þá hafa viðkomandi aðilar heldur ekki upplýsingar til að vinna sitt starf í eftirfylgni hvað varðar jöfn laun og jöfn kjör. Ég sé því ekki að þetta muni ganga, en ef það kemur fram í frumvarpinu væri gott að hv. formaður nefndarinnar bendi á það og taki það fram. Það hefur mikið gildi ef formaður þingnefndar skýrir lagatexta úr ræðustóli Alþingis, eftir því mun verða tekið.

Varðandi síðara atriðið þá er það lagatextinn eða frumvarpstextinn sjálfur sem svarar því. Ég geri athugasemdir við 2. mgr. 15. gr. sem segir að þegar tilnefnt er í nefndir og ráð, og ráð er Jafnréttisráð m.a., nefndir ráða stjórnir, eigi að tilnefna bæði karl og konu og síðan eigi tilnefningaraðilinn að velja hvorn hann setur í viðkomandi starf. En lagatextinn um Jafnréttisráð hljóðar ekki svo heldur skipar ráðherra tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum launafólks t.d. Fulltrúar sem tilnefna á eru ekki fjórir og ráðherra á ekki að velja tvo af fjórum heldur eru þeir bara tveir sem tilnefna á og eiga báðir að fara inn o.s.frv. Það er alveg skýrt í frumvarpinu.