135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hillir undir lokin á 2. umr. um frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að óska eftir því formlega úr þessum ræðustóli að málinu verði vísað til nefndar á ný milli 2. og 3. umr. Eins og kom fram í máli mínu áðan tel ég afar mikilvægt að ákveðnir þættir málsins séu skoðaðir áfram. Ég sannfærðist í þeirri trú minni þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði frá því á hvern hátt hefði verið unnið á síðustu dögum þingsins fyrir jól. Það kannski skýrir ákveðna fljótaskrift á hlutunum í breytingartillögum nefndarinnar og þá nefni ég sérstaklega hugmyndir um vottunarkerfið. Ég fagna því mjög að nú skuli tryggt að málinu verði vísað til nefndar á nýjan leik, ég lít svo á að það hljóti að verða gert úr því að komin er fram formleg ósk um það.

Ég varð að skilja þar við í fyrri ræðu minni, um aðferðir til að samþætta kynjasjónarmiðin í allar ákvarðanir, að ég hafði ekki tíma til að vitna til umsagnar sem mig langar að vitna í. Það er umsögn Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum sem fjallar sérstaklega um þetta atriði í umsögn sinni til nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt a-lið 1. gr. frumvarpsins, segir að markmiðum laganna skuli náð með því „að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins“. Þetta er grundvallaratriði því hér er um víðtæka aðferðafræði að ræða en þess sér of lítinn stað í frumvarpinu hvernig þetta eigi að ganga fyrir sig. Jafnréttissérfræðingar hafa varað við að samþættingarhugtakið geti veikt jafnréttisstarf ef því er ekki gefið innihald.

Gagnrýnin á samþættingarhugmyndina snýst m.a. um hvernig hugtakið hefur verið notað, hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi til að samþætting beri varanlegan árangur. Rangtúlkanir á innihaldi samþættingarhugtaksins eru ein helsta hindrunin fyrir árangri. Margir rugla samþættingu saman við fyrstu jafnréttisáherslu ESB, meginregluna um jafnan rétt og bann við mismunun. Sé samþætting skilgreind þannig felur hún í sér hugmyndalegt afturhvarf um nokkra áratugi og lækkar metnaðarstig málaflokksins. Allt veltur á því hvernig samþættingu er hrundið í framkvæmd. Hún kallar á fjármagn, kynjavitund og pólitískan vilja.

Annað grundvallaratriði er sérfræðiþekking og hvernig hún er nýtt. Eigi embættismenn kerfisins að fá þjálfun og það þekkingarstig sem þarf til að fella samþættingu inn í viðtekin verkferli, kallar það á stórtækt fræðsluátak. Ef þetta er ekki fyrir hendi getur samþætting orðið máttlaust orð á blaði, ekki bara gagnslaus, heldur „fjarvistarsönnun“, afsökun fyrir að gera ekki neitt“.

Í umsögninni er vitnað til umfjöllunar Þorgerðar Einarsdóttur í grein sem hún skrifaði og ber heitið Jafnrétti án femínisma, pólitík án fræða. Greinina er að finna á heimasíðu Þorgerðar sem er vistuð undir Háskóla Íslands. Þorgerður segir í þessari grein sinni, sem er uppistaðan í umsögn Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum hvað þetta málefni varðar, með leyfi forseta:

„Reynslan sýnir að bandalög og samstöðutengsl jafnréttissérfræðinga, feminískra fræðimanna, embættismanna og stjórnmálamanna hafa reynst með mikilvægustu tækifærum í þessu ferli.“

Ég vil leyfa mér að taka undir þessi sjónarmið og ítreka þau. Ég tel mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvað við erum að segja hér og að við gefum þessu samþættingarhugtaki sem er notað í frumvarpstextanum, og verður að öllum líkindum í lagatextanum, það innihald sem nauðsynlegt er.

Því er ekki fyrir að fara í skilgreiningum með frumvarpinu, ekki svo nægilegt eða fullnægjandi megi teljast. Ég tel því að við þurfum, annaðhvort í nýju nefndaráliti eða í einhvers konar yfirlýsingum frá löggjafanum, að kveða skýrar á um hvað við eigum við með því hugtaki og hvað okkur finnst að þurfi að gera, hvernig hrinda eigi í framkvæmd slíku átaki til samþættingar.

Varðandi rannsóknaþáttinn almennt er getið um það í frumvarpinu, í 23. gr., að efla þurfi rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, jafnt fræðilegar rannsóknir, grunnrannsóknir sem hagnýtar rannsóknir og miðla þurfi niðurstöðum þeirra markvisst innan skólastarfsins og til fjölmiðla. Undir það sjónarmið tek ég en ég tek líka undir það sjónarmið Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum að þó mikilvægt sé að fræða yngra fólkið sé ekki síður mikilvægt að fræða fullorðið fólk um jafnréttissjónarmið og jafnréttismál. Rannsóknastofan tekur dæmi í umsögn sinni og segir frá því að í niðurstöðum rannsóknaverkefnis sem var unnið á vegum rannsóknastofunnar um fæðingarorlof sé bent á mikilvægi þess að fræða karla um fæðingarorlofið, um gildi þess, réttindi feðra og skyldur gagnvart börnum sínum. Við þekkjum öll hvað sú fræðsla sem átt hefur sér stað á þeim vettvangi hefur verið dýrmæt og hvað hún hefur skilað miklu út í samfélagið. Sú fræðsla hefur átt þátt í því að breyta sjónarmiðum sem er ekki hvað síst tilgangur þessara laga. Við þurfum því að átta okkur á því hve fræðsluhlutverkið er mikilvægt og vera okkur meðvituð um hve mikið þarf að gerast til þess að efla það.

Ég vil í lokin segja örfá orð í viðbót við það sem rætt var áðan í tilefni af ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem fjallaði um kynbundið ofbeldi. Ég ítreka það sjónarmið mitt að ég tel að ábendingin sem nefndin hefur fengið frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, um það að skilgreina beri kynbundið ofbeldi í lagatextanum, sé mikilvæg. Ég tel tillögu Mannréttindaskrifstofu, sem ég setti fram í andsvari áðan, afar skynsamlega og legg til að það verði skoðað í nefndinni hvort ekki sé tilefni til að taka þá skilgreiningu inn í lagatextann.

Nokkrar aðrar ábendingar í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands eru athyglisverðar. Það hefði t.d. verið gagnlegt að heyra hvernig nefndin brást við tillögum Mannréttindaskrifstofu Íslands sem lýsir sig reiðubúna til að eiga fulltrúa í Jafnréttisráði. Skrifstofan vinnur að mannréttindamálum á heildstæðan hátt og fulltrúar hennar gætu að mati skrifstofunnar varpað ljósi á ýmislegt sem lýtur að jafnréttismálum. Í umsögninni er fjölþáttamismunun t.d. nefnd, mismunun sem konur verða fyrir, tvöföld mismunun á grundvelli kynferðis og kynþáttar. Ég hefði gaman af að vita, í ljósi þess sem við höfum rætt um skipan Jafnréttisráðs, hvernig nefndin brást við þessu tilboði. Það hefur ekki komið fram í umræðunni hingað til að þetta hafi staðið nefndinni til boða. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið skoðað þar sem nefndin tók upp skipanina í Jafnréttisráð.

Mannréttindaskrifstofan hvetur stjórnvöld einnig til að auka fjárframlög til Jafnréttisstofu umtalsvert svo að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Undir það sjónarmið tek ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað bent á það í fjárlagaumræðunni að það sé grundvallaratriði í því að koma fram sjónarmiðum og ná fram markmiðum þessarar löggjafar að vel sé gert við Jafnréttisstofu. Ég þekki það eftir fjárlagaumræðuna nú í haust að Jafnréttisstofa fær aukin stöðugildi en mér er til efs að svo miklu sé bætt við stofuna að það nægi til þess að hún geti tekið við, svo vel sé, öllum þeim auknu verkefnum sem hún fær með frumvarpinu.

Mannréttindaskrifstofan bendir okkur einnig á í umsögn sinni að Ísland hafi undirritað en ekki fullgilt ýmsa samninga sem snúa að jafnréttismálunum og hún hvetur stjórnvöld til að fullgilda hið fyrsta samningsviðauka nr. 12 í mannréttindasáttmála Evrópu en í honum er að finna sjálfstætt bann við mismunun. Ég tek undir þetta sjónarmið. Hún hvetur stjórnvöld líka til að fullgilda Evrópusamninginn um aðgerðir gegn mansali og samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna gegn skipulagðri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi ásamt viðaukum. Ég bendi hv. þingmönnum á að þetta er samhljóma tillögum og þingmálum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt hér ítrekað þannig að ég tek líka undir þessi sjónarmið. Ég hefði talið eðlilegt að nefndin sýndi okkur í nefndaráliti sínu einhver viðbrögð við þeim tillögum sem Mannréttindaskrifstofan fer fram á í umsögn sinni.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að sitja alla þessa umræðu. Það er til eftirbreytni. Eins og hér hefur oft verið sagt áður er það allt of sjaldan sem ráðherrar hafa úthald í að sitja og hlýða á allar þær umræður sem eiga sér stað við 2. umr. frumvarpa sem undir þá (Forseti hringir.) heyra. Það er virðingarvert af hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að gera það og fyrir það þakka ég.