135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:15]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég stend upp í lok þessarar umræðu til að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og fagna henni. Þetta er mjög áhugaverð umræða sem staðið hefur í rúmar þrjár klukkustundir. Menn hafa skipst á skoðunum um jafnréttismálin almennt og mér finnst umræðan endurspegla þann áhuga sem er á jafnréttismálum og þó að menn séu kannski ekki sammála um leiðir eða einstök ákvæði í frumvarpinu held ég að allir hafi sama markmið, að stuðla að jafnrétti, en hafa e.t.v. skiptar skoðanir á hvaða leiðir eigi að fara til að ná því markmiði.

Mér finnst ákvæði í því frumvarpi sem við erum að fjalla um við 2. umr. gefa tilefni til og færi á að taka með öðrum og nýjum hætti á jafnréttismálunum en gert hefur verið til þessa. Vonandi leiða þau til þess að við náum betri og meiri áfanga í að minnka kynbundinn launamun og einnig að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og í nefndum og stjórnum á vegum hins opinbera, sem er nauðsynlegt að gera að mínu mati, og ýmis ákvæði í frumvarpinu og breytingartillögum hv. félags- og tryggingamálanefndar gefa einmitt færi á því að mínu mati.

Farið var vítt og breitt yfir þær breytingartillögur sem nefndin leggur til og almennt um stöðu jafnréttismála, sem er mjög jákvætt. Talsvert var stoppað við það ákvæði sem nefndin flytur sem ákvæði til bráðabirgða, um jafnlaunavottunina, og skoðun mín er sú að nefndin hafi nálgast það viðfangsefni mjög skynsamlega. Ég tjáði mig aðeins um þetta við 1. umr. málsins og taldi áhugavert að skoða þessa leið. Hún hefur verið töluvert lengi í umræðunni en ég hygg að samráðshópur á vegum fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem hann skipaði í nóvember 2005 til að undirbúa slíka vottun, sé byrjunin á þessu. Ég hef orðið vör við það eftir að ég kom í félagsmálaráðuneytið að þar hafa ýmsir áhuga á að fara þessa leið en eins og gerist og gengur hafa aðrir minni áhuga á því og hafa kannski ekki mikla trú á henni. Að mínu viti er það því skynsamleg nálgun sem farin er með þeirri breytingartillögu sem hér er lögð fram en þar segir, með leyfi forseta:

„Félagsmálaráðherra skal sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Verkefninu skal lokið fyrir 1. janúar 2010 og skal þá fara fram endurskoðun á lögum þessum.“

Ég mun ekki draga það að setja þessa vinnu í gang. Hún á að vera í gangi í nokkurn tíma og það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja til að það taki nokkurn tíma að þróa slíkt vottunarkerfi og hvernig meta eigi vægi einstakra jafnréttisþátta í slíkum stöðlum. Það er mikilvægt, eins og nefndin leggur áherslu á, að veitt verði til þess tilskilið fjármagn til að hægt sé að standa að þeirri vinnu eins og réttilega kemur fram í áliti nefndarinnar en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef koma skal slíku kerfi á fót þarf að fara fram ítarleg rannsóknarvinna og þróun á vottunarkerfi.“

Það er alveg rétt sem þar kemur fram að þetta er örugglega töluverð vinna. Lagt var mat á það hve mikill kostnaður fylgdi slíkri þróunarvinnu og jafnlaunavottun af þeim aðilum sem unnu með málið á fyrri stigum, þ.e. af aðilum sem tengjast háskólunum þremur, og þar var áætlað að þetta kostaði um 73 millj. kr. Það eru heldur meiri peningar en almennt er ætlað til að hrinda í framkvæmd ákvæðum þessa frumvarps þannig að við erum að tala um töluvert mikla peninga í þessu sambandi.

Ég tel mjög jákvætt ef fyrirtæki eða stofnanir vilja afla sér jafnlaunavottunar en þróun vottunarinnar er skammt á veg komin og ýmsum spurningum er enn ósvarað sem munu auðvitað skýrast eftir því sem þessari vinnu vindur fram og vonandi getur hún farið af stað fljótlega. Ég held að þetta geti unnið vel saman, bæði jafnlaunavottun og framkvæmd á ákvæðum þess frumvarps sem hér liggur fyrir, en ég tel að það hefði verið of bratt af stað farið að lögfesta slík ákvæði áður en menn hefðu farið yfir þróunarvinnuna sem er alveg nauðsynleg og hvernig þessum stöðlum verður best fyrir komið.

Ég vil nefna jafnréttisþingið sem var töluvert nefnt og ég bind miklar vonir við og ef vel tekst til og þetta frumvarp verður fljótlega að lögum verður hugsanlega hægt að hafa slíkt þing í maílok. Ég legg áherslu á að það verði haldið eins fljótt og hægt er vegna þess að ég tel mikilvægt að nýta slíkt þing til að fá fram hugmyndir sem gætu nýst vel í þá vinnu sem þarf að fara fram við gerð framkvæmdaráætlunar í jafnréttismálum kynjanna sem lögð verður fyrir Alþingi. Ég bind miklar vonir við þetta jafnréttisþing og tel að hægt sé að halda það mjög fljótlega, hugsanlega í maímánuði en í síðasta lagi í ágúst/september á þessu ári.

Ég tel ekki út af fyrir sig ástæðu til að fara ítarlega yfir þær breytingartillögur sem nefndin gerði í meðferð sinni á málinu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að í mörgum tilvikum er um að ræða málamiðlanir og ég geri engar athugasemdir við það. Ég geri mér alveg ljóst, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að það geta verið skiptar skoðanir um aðferðir og leiðir til að ná fram þeim tilgangi sem jafnréttislögin hafa og ég sætti mig vel vil þá niðurstöðu sem nefndin komst að í vinnu sinni og sé ástæðu til þess í lok umræðunnar að þakka nefndinni fyrir þá miklu vinnu sem var lögð í þetta mál og þá góðu samstöðu sem náðist í nefndinni um breytingartillögur sem hér hafa verið kynntar og þá frumvarpið í heild þó að ég geri mér grein fyrir, eins og ég sagði áðan, fyrirvara hv. þm. Péturs H. Blöndals og því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni í þessu máli. Ég vil ítreka það sem mér fannst formaður heilbrigðis- og trygginganefndar skýra alveg ágætlega að það er misskilningur hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni varðandi þá leið sem farin er við tilefningarnar, að tilnefna karl og konu. Af því að hv. þingmaður hélt því fram að þetta ákvæði hefði ekki verið í upphaflega frumvarpinu sem þetta frumvarp var að miklu leyti byggt á, þá var það í 22. gr. gamla frumvarpsins sem ekki var lagt fyrir þingið en er nú komið í 15. gr. Ég hygg að það sé orðrétt sama ákvæðið um að tilnefna eigi karl og konu. Í núgildandi lögum er þetta tilgreint sérstaklega fyrir Jafnréttisráð vegna þess að þetta var ekki almennt í lögum um skipan annarra nefnda, stjórna og ráða nema að því er varðar Jafnréttisráð. Með þessu ákvæði, verði það að lögum, á þetta almennt við um allar nefndir og stjórnir og ráð og þarf þá ekki að tiltaka það sérstaklega í þessum lögum um Jafnréttisráð.

Hv. þingmaður gerði raunar líka athugasemdir við efnisatriði 15. gr. um að skipa ætti bæði karl og konu. Hann hefur þá skoðun á því sem ég virði en ég er ósammála hv. þingmanni um að ekki sé rétt að fara þá leið að tilnefna bæði karl og konu. Það er leið til þess að ná fram meira jafnrétti í nefndir, stjórnir og ráð á vegum hins opinbera en það vantar töluvert mikið upp á það. Ef þetta væri ekki gert með þessum hætti þá væri þetta þannig að fulltrúar í opinberar stjórnir, nefndir og ráð væru oftar en ekki skipaðir á grundvelli tilnefninga hagsmunaaðila og væru eingöngu karlmenn skipaðir af þeim hagsmunaaðilum sem hafa tilnefningarrétt í kannski fimm eða sjö manna nefndir þá gæti ráðherra eða sá sem skipa á viðkomandi stjórn eða ráð staðið frammi fyrir því að vera með nefnd eða stjórn sem stefndi í að vera sex karlar og hann mundi þá væntanlega skipa konuna. Ég held þess vegna að það sé leið til að ná fram jafnrétti að lögbinda þetta með þessum hætti.

Ég hef sannarlega orðið vör við það eins og þetta er núna, þegar þetta er ekki lögbundið nema gagnvart Jafnréttisráði og jafnvel þótt óskað sé bréflega tilnefningar karls og konu, að ýmsir aðilar hunsa það og sumir hafa það að reglu að tilnefna bara einn aðila, þann sem þeir vilja sjá í viðkomandi nefndir. Ef þetta væri með þessum hætti væri erfiðara að ná þessu fram vegna þess að auðvitað hlýtur sá sem tilnefna á aðila í stjórn, nefnd eða ráð að tilnefna tvo hæfa einstaklinga sem hann treystir. Síðan er það ráðherrans eða þess sem skipar í nefndina að meta út frá því af því að hann skipar yfirleitt formanninn, hvort hann þarf að skipa karl eða konu og þá fer það eftir því hvaða hátt aðrir tilnefningaraðilar hafa haft á. Því tel ég að þetta sé rétta leiðin, virðulegi forseti.

Ég ítreka þakklæti mitt fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og fyrir það góða starf sem nefndin hefur unnið. Ég vona að með þessu frumvarpi, þegar það verður að lögum, séum við að samþykkja framsækin lög sem gefa okkur færi á að ná fram meira jafnrétti en raunin hefur orðið á hingað til.