135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir lokaorð í ræðu hæstv. ráðherra og hef svo sem ekki miklu við það að bæta. En varðandi frumvarpið sem nefndin samdi og sendi ráðherra á sínum tíma þá fékk ég það sent frá formanni Frjálslynda flokksins þegar þetta frumvarp kom fram í haust og samkvæmt því er þetta atriði ekki í 22. gr. frumvarpsins. Þarna fer því eitthvað á milli mála. Ef til vill er hæstv. ráðherra með einhverja aðra útgáfu af þessu frumvarpi en ég og málið breyst frá því skjali sem ég hef undir höndum og þess vegna sagði ég það sem ég hef sagt um þetta atriði, virðulegi forseti.

Það er út af fyrir sig ekki aðalatriðið heldur hitt sem mér finnst ástæða til að halda á lofti, a.m.k. varðandi stjórnmálaflokkana, að ég get ekki fallist á að annaðhvort Alþingi eða einstakir ráðherrar ráði því hvaða fulltrúar flokkanna starfi í einstökum nefndum og ráðum. Ég tel að það sé stjórnarskrárbundið að stjórnmálaflokkarnir ráði sér sjálfir. Ég tel að enginn aðili sé til þess bær að ráða því umfram þá sjálfa og umbjóðendur flokkanna sem eru kjósendur. Kjósendur hafa kosið viðkomandi flokk og gera upp við hann að lokum og ég sé ekki neinar forsendur fyrir því að Alþingi eða ríkisstjórn taki valdið í sínar hendur og leiðrétti vilja kjósenda og takmarki áhrif stjórnmálaflokks á því að ákveða hver starfar fyrir hans hönd í tiltekinni nefnd.