135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

breytt fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[13:33]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Fremst á dagskrá þessa fundar er liðurinn Störf þingsins. Hann á ekki að vera ókunnugur alþingismönnum, svo oft sem við höfum rætt um störf þingsins í gegnum tíðina en með breytingum á þingsköpum hefur tími til að ræða um störf þingsins verið lengdur úr 20 mínútum í 30 mínútur. Ræðutími er sá sami, tvær mínútur tvisvar sinnum hjá hverjum hv. þingmanni.

Þessi dagskrárliður, störf þingsins, verður að jafnaði á dagskrá á þriðjudögum og miðvikudögum, við upphaf fundar. Sú breyting verður á frá fyrra fyrirkomulagi að gert er ráð fyrir að hv. þingmenn beini máli sínu til forustumanna innan þingsins, formanna þingflokka, formanna nefnda o.s.frv. en ekki til ráðherra sérstaklega.

Ég hef mælst til þess við formenn þingflokka að sú vinnuregla sem í gildi var um störf þingsins verði áfram, þ.e. að þeir þingmenn sem ætla að kveðja sér hljóðs geri viðvart um það með fyrirvara, ekki síst þeim sem þeir beina máli sínu til. Að öðru leyti er orðið frjálst og þingmenn verða settir á mælendaskrá eftir því sem þeir kveðja sér hljóðs í þingsalnum með hefðbundnum hætti.

Ég vil geta þess að ráðherrum verður ekki varnað máls, að sjálfsögðu ekki, undir þessum dagskrárlið en þeir standa ekki til andsvara eins og oft var áður og gerist í óundirbúnum fyrirspurnatíma.