135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að komist að í þessari umræðu. Í fyrsta lagi vildi ég nefna að í þessu tiltekna embættisveitingarmáli sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vakti máls á hafa verið höfð uppi ýmis gífuryrði, bæði innan þings og utan, sem mér finnst ekki eiga stoð í veruleikanum og ekki stoð í þeim lagagrundvelli sem ákvarðanir af þessu tagi eru byggðar á.

Mér finnst ljóst að í þessu máli liggi lagagrundvöllurinn skýr fyrir. Það eru gerðar ákveðnar hæfiskröfur í lögunum og enginn ágreiningur er um að þær hafa verið uppfylltar í þessu. Eins er gerð krafa um að ráðherra rökstyðji niðurstöðu sína með málefnalegum hætti. Það hefur hann gert og því er í mínum huga enginn efi um að þessi ákvörðun stendur sem fullkomlega málefnaleg og lögmæt ákvörðun.

Síðan geta menn deilt um það hvernig fyrirkomulag þessara mála á að vera. Það var kannski kjarninn í spurningu hv. þingmanns til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Þar hafa ýmsar hugmyndir verið uppi. Það er reyndar rétt að geta þess, af því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir blandar saman annars vegar skipan héraðsdómara og hins vegar skipan hæstaréttardómara, að um þetta gilda að nokkru leyti mismunandi reglur. Frumvarp hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar gengur út á skipan hæstaréttardómara en ekki skipan héraðsdómara þannig að á vissan hátt er tvennu ruglað saman í þessu sambandi. Ég hef engan heyrt halda því fram nema hv. formann Framsóknarflokksins að sömu reglur eigi að gilda um þessi efni, en hann lýsti yfir í blaðagrein að þingið ætti að fjalla um skipan allra dómara, bæði níu hæstaréttardómara og 38 héraðsdómara. Ég held að ekki séu aðrir uppi með þá tillögu.

Varðandi það hvort þingið eigi að koma að þessu vil ég segja að einmitt reynslan frá Bandaríkjunum sýnir að með þeim hætti er skipan dómara gerð að pólitísku bitbeini, ekki bara í undantekningartilfellum (Forseti hringir.) þar sem skoðanir kunna að vera skiptar, heldur í öllum tilvikum. (Forseti hringir.) Ég tel að það væri ekki til framdráttar að blanda pólitíkinni meira inn í þetta en nú er.