135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir skýr og greið svör. Það er alveg ljóst hver vilji hans og meining er í því máli og gagnvart þeirri spurningu sem til hans var varpað hvort sem menn telja að hann sé orðinn vindlaus eða ekki. Það er allt annað mál.

Það liggur fyrir að skipan og veiting dómaraembætta skiptir gríðarlega miklu máli í lýðræðisþjóðfélagi. Við erum að tala um eina af meginstoðum þjóðfélagsins, lýðræðislega valdsins sem við búum við, eitt valdið í þrígreiningu ríkisvaldsins. Þá er spurningin hvernig eigi að haga veitingavaldinu. Á að haga því þannig að annar þáttur ríkisvaldsins, þ.e. framkvæmdarvaldið, hafi algjörlega með það að gera eða er eðlilegt að koma að því með vandaðri hætti? Ég tel að það eigi að koma að því með vandaðri hætti þannig að löggjafarvaldið hafi ekki síður með það að gera.

Menn getur greint á um einstakar embættaveitingar. Stundum tekst vel til að mati manna og stundum miður. Það borgar sig þegar menn eru að tala um og móta almennar reglur að gera það án tilvísana í það þegar flokksgæðingum eða vinum hefur kannski verið hossað meira en eðlilegt hefði verið. En einmitt slík tilvik gera kröfu til þess að löggjafarvaldið setji vandaðar reglur um það hvernig að skuli fara til að þvo þau óþrif pólitískra embættaveitinga af íslensku lýðræðisþjóðfélagi. Þess vegna er nauðsynlegt að vanda til reglna varðandi skipan dómara og hafa það þannig að Alþingi hafi með hana að gera til jafns við framkvæmdarvaldið. Að sjálfsögðu er það rétt sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði um það að veitingavaldið er hjá ráðherra en það þarf að koma í veg fyrir að hann geti notað það að geðþótta í jafnmikilvægu máli.