135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:59]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í samtal hv. þingflokksformanna Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Mér finnst hins vegar rétt, af því að hér hefur töluvert verið rætt um hvernig skipa ætti í dómaraembætti, að menn hafi í huga að þetta er auðvitað vandaverk. Það er vandi að móta reglur um þetta. Um það hljóta allir að vera sammála. Ég er sammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem nefndi áðan að tilefni kynni að vera til að fara í endurskoðun. Það hafnar því enginn að það megi fara yfir þessar reglur.

Ég átti sæti í stjórnarskrárnefnd á síðasta kjörtímabili þar sem skipan dómara við Hæstarétt var töluvert til umræðu. Þó að niðurstaða næðist ekki í því máli er ekki óeðlilegt að einhver slíkur vettvangur sé notaður til að komast að niðurstöðu um þetta. Hæstiréttur er æðsti dómstóll landsins og það er ekki útilokað að einhver samstaða kunni að nást um breytingar að þessu leyti.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan að ég hef áhyggjur af því ef þingið fer inn í þessi mál með þeim hætti sem tillaga hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar gerir ráð fyrir og þær tillögur ganga út á sem hér hafa verið nefndar. Ég held, eins og ég nefndi áðan, að reynslan frá Bandaríkjunum sýni að dómaraskipan við Hæstarétt er alltaf pólitískt bitbein. Hún hefur valdið miklum deilum á Bandaríkjaþingi og ég hef áhyggjur af því að ef þetta yrði með þeim hætti hér á landi — sem reyndar á sér ekki fordæmi í Evrópulöndum, ekki fordæmi í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við hvað varðar réttarskipan — yrði dómaraskipan, ekki bara níu hæstaréttardómara heldur líka 38 héraðsdómara, bitbein annaðhvort í pólitískum deilum eða þá hrossakaupum í þinginu. Hvorugt tel ég gott.