135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[14:04]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að brydda örstutt á öðru máli en því sem hér hefur verið til umræðu. Hæstv. forseti lét þess getið í upphafi fundar að samkvæmt breyttum þingsköpum væri hugsunin sú í umræðum um störf þingsins að menn gætu beint máli sínu til forustumanna í þinginu, eins og ég held að hann hafi orðað það. Ég lít svo á að hæstv. forseti sé einn af forustumönnum í þinginu. Ég hjó eftir því að þegar þing kom saman í gær sagði hæstv. forseti að í kjölfar breytinga sem átt hefðu sér stað á þingsköpum hefði hann í hyggju að funda fljótlega með formönnum þingnefnda um ýmis atriði sem þeim breytingum fylgja en hluti þeirra breytinga varðaði störf nefnda. Mér finnst auðvitað mikilvægt að benda á í þessu samhengi að eins og staðan er í þinginu í dag, og hefur reyndar lengstum verið, þá koma allir nefndarformenn, og reyndar varaformenn líka, úr röðum stjórnarliða. Störf þingnefnda hljóta að koma öllum nefndarmönnum við, líka stjórnarandstöðunni. Ég leita því eftir viðbrögðum frá hæstv. forseta um það: Stendur til að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum þegar farið verður í að ræða um breytingar á fyrirkomulagi í starfi þingnefndanna? Kemur til álita að hæstv. forseti muni hugsanlega tala við fulltrúa flokkanna sem eru í stjórnarandstöðu núna, annaðhvort þingflokksformanna eða fulltrúa í einstökum nefndum eða hvernig hyggst forseti haga samráði sínu við stjórnarandstöðuna í þessu efni ef hann telur það þá einhverju máli skipta?