135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

fyrirspurn á dagskrá.

[14:08]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á að hér er sem fyrsta mál á dagskrá á þessum fyrirspurnafundi, reyndar annað dagskrármál, Útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks, fyrirspurn frá VS, þ.e. þeirri sem hér stendur. Engu að síður hefur fjármálaráðherra ekki séð sér fært að svara þessari fyrirspurn og það eru mánuðir síðan hún var lögð fram, margir mánuðir. Það var um það leyti sem meiri hlutinn féll í Reykjavík. Ég er farin að undrast það mjög að hæstv. fjármálaráðherra treysti sér alls ekki til að svara fyrirspurninni. Ég veit að hún er viðkvæm fyrir Sjálfstæðisflokkinn (Gripið fram í.) en að hún sé svo viðkvæm að ekki sé hægt að fjalla um málið á hv. Alþingi, það undrast ég mjög.

Ég vildi bara vekja athygli á því. Það eru komnir mánuðir síðan fyrirspurnin var lögð fram og enn á að fresta málinu.