135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

samkeppnisstaða hótela og gististaða á landsbyggðinni.

216. mál
[14:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það var unun að hlýða á hinn lýríska inngang að þessari góðu spurningu um ferðamál. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að hinn langi og strangi vetur er orðinn hundleiðinlegur og öll hlökkum við til þess að sjá morgnana birtast með sól.

Hv. þingmaður sagði að með rísandi sól breyttust skólahúsnæði víðs vegar um landið í gistihús. En er það svo? Er það staðreyndin? Það var það alla vega, það er alveg hárrétt. Ég held að reynslan sýni að það sé miklu minna um það núna en áður.

Spurning hv. þingmanns var sú hvort ég hygðist beita mér fyrir könnun á samkeppnisstöðu hótela og gististaða á landsbyggðinni með hliðsjón af því að ríkið hefur leigt skólahúsnæði. Ég get sagt hv. þingmanni það alveg ærlega að ég hef ekki haft áform um það. Hins vegar tel ég ekkert því til fyrirstöðu ef menn telja að þarna sé um verulega skerta samkeppnisstöðu að ræða að ráðuneyti ferðamála beiti sér fyrir slíkri könnun í einhverri mynd.

Þegar svarið við þessari fyrirspurn var undirbúið var haft samband við bæði hagsmunasamtök og ferðamálafulltrúa og leitað álits þeirra á þörfinni á slíkri könnun. Það er skemmst frá því að segja að þeir telja að könnun sé ekki nauðsynleg en það má vel vera að hægt sé að rekja þá afstöðu þeirra til þess að þeir séu með einhverjum hætti hagsmunatengdir. Hins vegar kom fram að víða er litið svo á að skólahúsnæði sé nauðsynleg viðbót og stundum eina viðbótin við ferðaþjónustuna sem menn geta fengið til að auka umsvif hennar á ákveðnum svæðum. Því er líka haldið fram að ef þessara möguleika nyti ekki við þyrfti að byggja mikið gistirými til að anna mikilli eftirspurn sem stendur í ákaflega stuttan tíma. Það er reyndar þannig að ég hef orðið var við það á mínum stutta ferli sem ferðamálaráðherra að til er fólk í ferðaþjónustunni sem kvartar meira að segja yfir lengingum skólaársins og því að hótelin loki of snemma vegna þess að þá eru börn komin í skólana og ekki hægt að leigja þá út. Jafnframt er það sjónarmið uppi að frekar sé skortur á gistirými en offramboð eða opinbert framboð. Ég tel sem sagt að ekkert sé því til fyrirstöðu að svona könnun sé gerð.

Hv. þingmaður spurði mig líka að því hvort ráðherrann telji slík afskipti ríkisins af ferðaþjónustu eðlileg. Þá vil ég enn undirstrika að öll aðkoma ríkisins að rekstri ferðaþjónustu með þessum hætti hefur farið minnkandi og reyndar hverfandi, sérstaklega eftir að — var það ekki hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem þáverandi samgönguráðherra tókst að selja Ferðaskrifstofu ríkisins sem var einmitt með flesta heimavistarskóla á sínum snærum? (Gripið fram í.) Með þeim hætti færðist reksturinn yfir til einkaaðila og á seinni árum hefur ríkisvaldið fetað í fótspor formanns VG frá þessum tíma að því leyti að það hefur selt einkaaðilum nokkra skóla og heimavistir þannig að rekstri þeirra af hálfu ríkisins sem gistirými hefur verið hætt. Ég nefni t.d. Héraðsskólann í Reykholti, í Reykjanesi, Skógaskóla og Alþýðuskólann á Eiðum þannig að bein afskipti ríkisins af rekstri gististaða eru miklu minni en áður, fara minnkandi og eru reyndar hverfandi miðað við heildina. Það er vel hugsanlegt að á einhverjum stöðum skekki það samkeppni alvarlega.

Ég hef fulla samúð með því sjónarmiði sem hv. þingmaður nefndi áðan. Það á sér ákveðnar sögulegar forsendur, á 6. eða 7. áratug síðustu aldar hóf Ferðaskrifstofa ríkisins að svara vaxandi þörf fyrir gistirými sem skapaðist af því að fólk lagði land undir fót og útlendingar komu í vaxandi mæli til Íslands. Þá fóru menn þessa leið. Það var hin dæmigerða leið Íslendinga til að svara aðsteðjandi vanda. Þeir bara redda málunum og þeir redduðu þeim með þessum hætti.

Það má vel halda því fram að gistirýmið sem hægt var að grípa til með þessum hætti hafi að sumu leyti hjálpað ferðaþjónustunni að festa sig í sessi og að margra mati lagði það grunninn að ferðaþjónustunni eins og hún hefur þróast. Ég get sagt það við hv. þingmann að á sínum tíma átti þetta fyllilega rétt á sér, svaraði þörf og átti hlut í að skapa auðsæld af völdum ferðaþjónustu. Tímarnir hafa breyst, það er minni þörf á þessu en áður. Þróunin hnígur öll að því að þessi leið til að anna eftirspurn sé að hverfa en ég er, eins og alltaf, jákvæður og bjartsýnn og alveg til í að kanna þetta.