135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

samkeppnisstaða hótela og gististaða á landsbyggðinni.

216. mál
[14:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir skýr svör. Það gleður hjarta mitt og er mjög til bóta að dregið hafi úr notkun skóla í þessum tilgangi og ég hafði svo sem vissu fyrir því. Við þekkjum dæmin. Tökum nærtækt dæmi úr uppsveitum Borgarfjarðar þar sem lengi var gisting, í þeim ágæta skóla Bifröst en er ekki lengur fyrir hendi. Svo er um fleiri slíka staði á landinu. En sums staðar eru skólar samt sem áður, menntaskólar og héraðsskólar, nýttir í þessum tilgangi. Ég kannast við það og skil að þetta hafi verið nauðsynlegt á árum áður þegar við vorum að renna styrkari stoðum undir ferðaþjónustu, meðan gisting var af skornum skammti í landinu. En hlutirnir hafa sem betur fer breyst til batnaðar.

Það sem ég spyr ráðherrann sérstaklega um er þó hvernig þessir skólar eru nýttir, þar sem svo er enn, hvernig slík nýting er ákveðin. Eru það, eins og ég hef ákveðinn grun um, aðilar sem koma utan frá sem nýta skólana til gistingar en ekki endilega þeir sem sinna ferðaþjónustu á svæðunum og hafa unnið að því að halda uppi ferðaþjónustu og mikilvægri atvinnu á sínum svæðum, sem skiptir gríðarlegu máli að sé fyrir hendi? Ég vil gjarnan að ráðherrann skoði það og velti fyrir sér hvort þar gæti verið einhver skekkja. Væri ástæða fyrir ráðherrann að skoða það? Um leið og við erum að tala um fjölbreytni í atvinnulífinu sem ég var að nefna verðum við líka að passa upp á að heimafólk hafi vilja og áhuga og þor. (Forseti hringir.) Hafi menn ástæðu til að ætla að það sé með öðrum hætti þá fer að harðna á dalnum.