135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

samkeppnisstaða hótela og gististaða á landsbyggðinni.

216. mál
[14:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Á sjónum í gamla daga sögðum við að við værum til í að skoða allt nema danska giftingu og ég er alveg til í að skoða þetta. Ég hef fulla samúð með því sjónarmiði að fólk sem byggir upp ferðaþjónustu og leggur í það ærnar upphæðir, miðað við það sem venjulegir Íslendingar hafa umleikis, sjái ofsjónum yfir því ef það er með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsir, að einhverjir aðvífandi söngfuglar komi utan sveitar og leigi skóla, sennilega fyrir lítinn pening, og reki þar gistiaðstöðu í samkeppni við þá sem hafa verið að byggja upp í sveitinni. Ég er sammála því sjónarmiði að það er ekki æskileg samkeppni.

Hv. þingmaður fór hálfa leið að því að spyrja mig hvort ég vissi hvaða reglur væru lagðar til grundvallar þegar svona væri ákveðið. Ég hef ekki hugmynd um það og segi það bara ærlega. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að þróunin hefur öll verið á þann veg að draga úr þessu. Ég hugsa að í framtíðinni verði þetta hverfandi.

Það má vel hugsa sér að þróunin sem við höfum séð á síðustu árum hafi skapað samkeppni með öðrum hætti, þ.e. að selja skóla beinlínis til að reka aðstöðu af þessu tagi. Það eru tilboð núna hjá ríkinu um að kaupa skóla sem búið er að leggja af, beinlínis til þess að breyta þeim í gistiaðstöðu. Um það gegnir allt öðru máli. Þá hafa einkaaðilar fjárfest í því og væntanlega tilheyra þeir samfélagi í viðkomandi byggðarlagi sem getur keppt innbyrðis um þessa hluti.

Áhersla hv. þingmanns á fullkomlega rétt á sér og eins og ég sagði er ég til í að skoða allt.