135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf á Norðvesturlandi.

314. mál
[14:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Einhverjum kann að þykja atvinnuleysistölurnar lágar í þessu kjördæmi. Út af fyrir sig má segja að það sé rétt í ljósi íbúafjölda. En það á sér skýringar í því að atvinnuleysi er ekkert á landinu. Það að þessar atvinnuleysistölur skuli yfir höfuð vera fyrir hendi endurspeglar stöðuna í atvinnumálum á þessu landsvæði. Það er samdráttur, fólksfækkun og fólkið flytur frá þessu landsvæði þangað sem atvinnan er fyrst og fremst í boði og það er hér á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysistölurnar væru því mun hærri ef ekki væru þessir fólksflutningar sem lækkuðu þær. Reynsla þeirra sem hafa mikið skipt sér af byggðamálum og fylgst með þeim er sú að einna erfiðast í því er brottflutningur kvenna af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Auðvitað hlýtur það að vera eðlilegt, eins og fyrirspyrjandinn Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir bendir hér á, að beina sjónum sínum að konunum, skapa atvinnu fyrir þær því að með því er kannski meiri von til þess að halda í íbúaþróun á landsvísu.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það er greinilegt að ráðherrann hefur ýmislegt á prjónunum í því skyni að bregðast við þessari atvinnuþróun. Það er allt vel sem þar er tiltekið og ráðherrann gat um. Ég vil sérstaklega nefna það sem kom fram hjá ráðherranum fyrir jól, áhuga hans á því að skipa sérstaka nefnd í hinu gamla Norðurlandskjördæmi vestra til þess að vinna að hugmyndum og síðar verkefnum í atvinnumálum í samræmi við það sem Vestfjarðanefndin gerði. Nú er sú nefnd komin á koppinn þannig að það eru út af fyrir sig jákvæð teikn af hálfu ráðherra.