135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf á Norðvesturlandi.

314. mál
[14:33]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er jafnan í gangi hljóðvær en sígandi atvinnuháttabylting. Hún birtist í því að stöðugar tækniframfarir valda því að störfum við frumframleiðslu eins og í landbúnaði og í sjávarútvegi er alltaf að fækka. Við það glímum við á ýmsum svæðum á landinu, til dæmis í þessu kjördæmi, sérstaklega í hluta þess, Húnavatnssýslum og þar í kring.

Besta ráðið til þess að snúa við fólksfækkun er að hækka menntunarstigið á þessum svæðum því rannsóknir sýna að um leið hækkar launastigið og þá dvelur fólk frekar í viðkomandi kjördæmi. (GÁ: Háskóli.) Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru lágar atvinnuleysistölur. En auðvitað spegla þær fólksfækkunina líka að hluta. Atvinnan, þar sem hún er, sogar til sín fólkið.

Ég vil segja að ég hef lagt mig fram um að reyna að stuðla að breytingum sem lúta að þessu. Það hef ég gert með því að styðja það mjög dyggilega að sett verði upp nefnd til dæmis á Norðurlandi vestra, eins og nú er búið að taka ákvörðun um, sem er samsvarandi að eðli og markmiði og Vestfjarðanefndin. Ekki má gleyma því að Vestfjarðanefndin lagði fram tillögur sem að hluta til er búið að hrinda í framkvæmd og verður væntanlega lokið á þessu og þar næsta ári.

Ríkisstjórnin hefur þegar í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi og í fjáraukalögum fyrir síðasta ár samþykkt fjárveitingar sem nema samtals 280 millj. kr. til þessa. Þar er um að ræða mikilvægan flutning starfa sem ekki tengjast þessari frumframleiðslu sem ég gat um áðan heldur rannsóknum og menntun. Mörg þessara starfa henta sérstaklega konum.

Það sem skiptir máli er að reyna að skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið og reyna að flytja til þessara svæða störf sem krefjast menntunar og sem geta lagt þræði inn í framtíðina. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli og það erum við að gera. Ég þakka svo hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð og okkar sem unnum Norðvesturkjördæmi.