135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

neyðarsendar.

267. mál
[14:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um neyðarsenda. Fyrsta spurning hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hyggst ráðherra tryggja að reglur Evrópusambandsins, sem ekki gera kröfur um neyðarsenda í gúmbjörgunarbátum, eins og hér hefur verið skylda,“ — frá 1979 eins og hér kom fram — „verði ekki teknar upp hér á landi?“

Því er til að svara að tilskipanir Evrópusambandsins um öryggi fiskiskipa hafa verið innleiddar í íslenskan rétt meðal annars með reglugerð nr. 122/2004, um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd sem og með reglugerð nr. 53/2000, um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa.

Gæta verður þess að reglur Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn verða innleiddar í íslenskan rétt. Reglur Evrópusambandsins mæla yfirleitt fyrir um tilteknar lágmarkskröfur en það kemur ekki í veg fyrir að settar verði strangari kröfur hér á landi.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Hefur ráðherra hugleitt að skipa starfshóp sem skoði hvernig endurnýjun neyðarsenda er háttað og að gera breytingar á reglum til að tryggja enn frekar öryggi sæfarenda?“

Ákvæði reglugerðar um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd og ákvæði reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa þarfnast endurskoðunar. Um þetta efni var rætt á siglingaráðsfundi 8. nóvember síðastliðinn auk þess sem fulltrúar hagsmunaaðila hafa átt fund með mér um þetta efni. Í þessu sambandi hef ég ákveðið að fela Siglingastofnun Íslands að gera tillögur að nýjum reglum um neyðarfjarskiptabúnað íslenskra skipa sem nota má þegar skip eru yfirgefin og skulu tillögurnar unnar í fullu samráði við hagsmunaaðila.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgangi Íslendinga að alþjóðlegum öryggis- og fjarskiptakerfum sem byggjast á þjónustu gervihnatta við leit og björgun mannslífa á sjó og landi?“

Ísland er ekki beinn aðili að alþjóðlegu öryggis- og fjarskiptakerfi sem byggist á þjónustu gervihnatta við leit og björgun. Hins vegar höfum við notið þessarar þjónustu líkt og fjöldi annarra þjóða sem ekki eru beinir aðilar að slíkum kerfum. Landhelgisgæslan sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið hefur með höndum framkvæmd leitar og björgunar á sjó.

Ég vil hins vegar benda á það að í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 hófst á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar umfjöllun um hryðjuverkavarnir í alþjóðlegum siglingum. Á vegum stofnunarinnar var samþykkt í árslok 2002 að gera tilteknar ráðstafanir, meðal annars þær að öll skip í alþjóðlegum siglingum skyldu búin AES búnaði, þ.e. sjálfvirkum búnaði sem sendir reglulega út upplýsingar um auðkenni viðkomandi skips og staðsetningu þess. Fjarskiptaboðin eru send með VHF-fjarskiptatíðni sem þýðir að langdrægni sendinganna er takmörkuð við 30–60 sjómílur frá landi. Siglingastofnun Íslands hóf uppbyggingu AES síðla árs 2004 í samræmi við lög um vaktstöð siglinga og tilskipun Evrópubandalagsins 2002/59 og stendur þessi vinna enn yfir.

Á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar hefur einnig verið unnið að því að koma á fót sérstöku fjarvöktunarkerfi skipaumferðar, svokölluðu LRIT. Hugmyndin felur í raun í sér að hægt er að fylgjast með allri skipaumferð um allan heim, þ.e. fjarvöktun skipaumferðar á úthafinu. Leggja þarf mat á þann ávinning sem fælist í aðgangi að upplýsingum úr hinu lokaða fjarvöktunarkerfi, þ.e. upplýsingum um skipaumferð um íslenska efnahagslögsögu að teknu tilliti til siglingaverndar, mengunarvarna, leitar og björgunar og svo framvegis með tilliti til þess að slíkra upplýsinga er þegar aflað í dag með rekstri AES upplýsingakerfisins.