135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Hér er hreyft við máli sem hefur lengi verið í undirbúningi og má segja að eftir miklar rannsóknir og athuganir í mörg undanfarin ár sé orðið tímabært að koma verkinu í framkvæmd, þ.e. Sundabraut.

Hér er líka um að ræða stórt skipulagsmál í Reykjavík sem varðar hagsmuni margra íbúa en ekki bara hagsmuni Reykvíkinga því sveitarfélög og samtök, meðal annars á Vesturlandi hafa lagt ríka áherslu á þetta mál.

Borgarstjórn Reykjavíkur virðist vera orðin einhuga og þar virðist hafa náðst þverpólitísk samstaða um leiðarval. Það er afstaða sem fer saman við sjónarmið íbúa á þeim svæðum þar sem áhrifa Sundabrautar gætir mest. Þetta er sömuleiðis mikið hagsmunamál fyrir Faxaflóahafnir en það var eitt af grundvallaratriðunum við sameiningu hafnanna að tryggja tengsl á milli hafnasvæðanna allra með Sundabraut. Hæstv. þáverandi samgönguráðherra átti meðal annars þátt í því með því að skrifa nafnið sitt undir yfirlýsingu þar um.

Það hefur verið rætt um kostnað og mun á einstökum leiðum. En frá mínum bæjardyrum séð er ekki nema hálf sagan sögð eins og því miður er allt of algengt. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að draga sérstaklega fram viðbótarkostnað við jarðgangaleið sem helgast af auknum kröfum til umferðaröryggis, ekki vegna þess að ég telji að það sé hægt að spara í því heldur vegna þess að ég tel mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvað umferðaröryggið kostar samfélagið. Þess vegna þarf sá kostnaður að vera sérstaklega sýnilegur. Kostnaður vegna umhverfis og lífsgæða íbúanna er hins vegar hvergi metinn. En hann er væntanlega sérstaklega hár ef farin er ódýrari leiðin að mati Vegagerðarinnar. Sem sagt, það er allt sett í topp hvað jarðgöng snertir en kostnaður við innri leið er lágmarkaður eins og kostur er eftir því sem ég fæ best séð.

Fjármögnunarleiðir skipta líka máli og þar hafa komið fram misvísandi yfirlýsingar. En niðurstaða meiri hluta starfshóps um Sundabraut sem núna nýlega hefur verið kynnt hefur verið mistúlkuð að mínu mati þar sem segir að það sé ekki unnt að fela fyrirtæki eins og Faxaflóahöfnum í opinberri eigu verkefnið án útboðs. Ég tel að það sé rangt og það sé ekki rétt eftir haft þar sem vitnað er í álit fjármálaráðuneytisins.

Af þessu tilefni og málinu öllu hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra svohljóðandi:

1. Hvenær má búast við að endanleg lega Sundabrautar verði ákveðin?

2. Er ráðherra sammála mati borgaryfirvalda um að jarðgöng séu ákjósanlegasti valkostur hvað legu brautarinnar áhrærir?

3. Hvenær má búast við að framkvæmdir hefjist við verkefnið?

4. Hvaða stefnu hefur ráðherra um fjármögnun verkefnisins? Mun hann tryggja jafnt aðgengi allra vegfarenda um veginn eða hyggst hann leggja til upptöku veggjalda?