135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:48]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur beint til mín fjórum spurningum varðandi Sundabraut og fyrsta spurningin hljóðar svo:

„Hvenær má búast við að endanleg lega Sundabrautar verði ákveðin?“

Því er til að svara að Reykjavíkurborg hefur ekki endanlega ákveðið legu Sundabrautar á skipulagi. Verið er að vinna við mat á umhverfisáhrifum fyrir kaflann frá Hallsvegi upp í Kollafjörð. Eins er unnið að umhverfismati vegna jarðgangaleiðar og hluta af leið þrjú en umhverfismat fyrir þá leið liggur í meginatriðum fyrir. Þegar allir þessir þættir liggja fyrir verður unnt að bera saman leiðirnar á raunhæfan hátt. Þá er nauðsynlegt að fram fari yfirveguð og opin umræða um þá kosti sem í boði eru. Nýlegar kostnaðartölur liggja fyrir um jarðgangaleið og tel ég nauðsynlegt að fram fari umræða um málið á opinberum vettvangi.

Í þessu skyni hef ég farið fram á það við Vegagerðina að haldinn verði fundur í sérstökum samráðshópi um málið. Í þeim hópi sitja m.a. fulltrúar íbúasamtaka. Þá hef ég í hyggju að efna til kynningarfunda um málið á næstu vikum þar sem almenningi verði gefinn kostur á að spyrja fræðimenn um forsendur þeirra rannsókna sem birtar hafa verið og eins að lýsa skoðunum sínum. Í framhaldi af því tekur ríkisstjórnin ákvörðun í málinu.

Í öðru lagi er spurt:

„Er ráðherra sammála mati borgaryfirvalda um að jarðgöng séu ákjósanlegasti valkostur hvað legu brautarinnar áhrærir?“

Þar sem samgönguráðherra hefur samkvæmt 3. mgr. 28. gr. vegalaga úrskurðarvald um réttmæti eða upphæðir kröfu Vegagerðarinnar á hendur sveitarfélagi ef þjóðvegi er valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri, með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu, og Vegagerðin hefur krafið viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun, getur ráðherra á þessu stigi málsins ekki tjáð sig um þessi atriði. Þetta á auðvitað við um þennan veg sem aðra sem deilt er um hvar eigi að liggja.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hvenær má búast við að framkvæmdir hefjist við verkefnið?“

Í samgönguáætlun 2008–2010 eru 8 milljarðar kr. til verkefnisins. Þar sem skipulag og umhverfismat liggur ekki fyrir nema að takmörkuðu leyti er verkhönnun ekki hafin. Þess er því ekki að vænta að framkvæmdir geti hafist fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2009. Frekari ákvarðanir um framkvæmdir verða væntanlega teknar við samgönguáætlun 2007–2018 og við endurskoðun fjögurra ára áætlunar 2009–2012.

Í fjórða lagi er spurt:

„Hvaða stefnu hefur ráðherra um fjármögnun verkefnisins? Mun hann tryggja jafnt aðgengi allra vegfarenda um veginn eða hyggst hann leggja til upptöku veggjalda?“

Eins og fram kom í svari við þriðju spurningu eru 8 milljarðar kr. til verksins á samgönguáætlun 2008–2010 af svokölluðu símafé. Við framlagningu viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 eða við endurskoðun samgönguáætlunar 2009–2012 mun skýrast nánar hvernig frekari fjármögnun verður háttað. Í þessu sambandi hefur verið rætt um einkaframkvæmd sem getur verið með eða án veggjalda.

Verkefnið er í samgönguáætlun í sérstakri fjáröflun. Sérstök fjáröflun, eins og það hugtak er sett fram í gildandi samgönguáætlun, getur verið með ýmsum hætti. Þar getur verið um að ræða einkaframkvæmd sem byggist á fjáröflun með notendagjöldum eða blöndu af notendagjöldum, ríkisframlagi og framlagi einkaaðila. Þar getur einnig verið um að ræða hefðbundnar framkvæmdir sem byggjast á hefðbundnum útboðum en í þeim tilvikum byggist sérstök fjáröflun alfarið á sérstöku ríkisframlagi eða lántökum sem felur í sér að ríkið greiðir framkvæmdina á lengri tíma en nú er venja til.