135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:51]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það var niðurstaða síðustu vegáætlunar og þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í að brýnustu og stærstu verkefni í samgöngumálum væru stofnæðir að og frá höfuðborginni, Suðurlandsvegur tvöfaldaður austur og Vesturlandsvegur í Borgarnes með Sundabraut. Reykjanesbrautin er að líta dagsins ljós og klárast. Þetta var talið mjög mikilvægt, bæði til þess að létta þá þungu umferð sem hér er og koma í veg fyrir slys. Það er náttúrlega mikilvægt að hæstv. samgönguráðherra setji kraft í þessi mál og þau verði unnin eins hratt og hægt er.

Reykjavíkurborg hefur markað sína stefnu í þessu máli og ég fagna því. Það skiptir miklu máli og því er ekkert að vanbúnaði. Mér sárnar það, og það mun þingheimi gera og þjóðinni, ef þetta tefst við deilur um hvernig þessi mál verði framkvæmd. Aðalatriðið er að fara í þessi (Forseti hringir.) stórhuga verkefni til að auðvelda samgöngur og hvet ég (Forseti hringir.) hæstv. samgönguráðherra að leggja sál sína í þetta verkefni og draga ekki lappirnar.